Jarðhitinn sparar Íslendingum 50 til 60 milljarða kr. á ári í erlendum gjaldeyri ef borið er saman við kostnað við olíukyndingu. Þetta kom fram í erindi Sigurðar Inga friðleifssonar, framkvæmdastjóra Orkuseturs, á aðalfundi Samorku í dag.
Sigurður Ingi sagði að ætla megi að um 800 þúsund tonn af olíu þyrfti til að kynda hýbýli Íslendinga. Þess í stað hefðum við jarðhitann og spöruðum 50 milljarða króna á ári í olíuinnflutningi, og innan skamms megi ætla að losunarkvóti vegna brennslu slíks olíumagns myndi kosta um 9 milljarða króna á ári.
Hann birti einnig samanburð á raforkuverði til heimila hér og í nokkrum nágrannalöndum. Raforka til heimila væri t.d. fjórfalt dýrari í Danmörku en hér. Ólíkt samanburðarlöndunum hafi raforkuverð til heimila farið jafnt og þétt lækkandi hér í rúman áratug, að teknu tilliti til þróunar vísitölu neysluverðs.
Hann sagði einnig að það væri stærðfræðilega ómögulegt að þau 20% raforkunnar sem færu á almennan markað gætu verið að greiða niður þau 80% orkunnar sem fara til stóriðju, eins og stundum væri haldið fram.