Stærsti lifandi kolkrabbi sem komið hefur á fiskasafnið í Vestmannaeyjum hefur fengið nafnið Vídalín. Það er til heiðurs skipverjum á togaranum Jóni Vídalín sem færðu safninu krabbann stóra.
Fjórir kolkrabbar bárust safninu í síðustu viku og er Vídalín sá stærsti sem safninu hefur borist til þessa, að sögn Kristjáns Egilssonar fyrrverandi safnstjóra.
Í frétt frá safninu segir að yfirleitt séu kolkrabbar mjög fælnir og feli sig helst fyrir safngestum. Það á ekki við um Vídalín því hann fann sér ágætan stein til að hvíla á fyrir miðjum tanki. Hinir þrír kolkrabbarnir eru feimnari og fela sig helst í gjótum og bak við steina í búrum sínum.
Vídalín verður til sýnis í Sæheimum, fiskasafninu við Heiðarveg í Vestmannaeyjum, á sunnudaginn milli kl. 15:00 og 17:00.