Fréttaskýring: Kynbundinn launamunur jókst í góðærinu

Hagstofan birti í gær niðurstöður nýrrar rannsóknar á launamun milli kynjanna á almenna vinnumarkaðinum á árunum 2000 til 2007. Rannsóknin var mjög viðamikil og staðfestir enn á ný að konur eru með lægri laun en karlar en hlutfallslegur launamunur lækkaði þó á tímabilinu. Á árinu 2000 voru konur með 24,8% lægra reglulegt tímakaup en karlar en munurinn var kominn niður í 15,9% á árinu 2007.

Hér er þó ekki öll sagan sögð. Ef litið er á heildartímakaup kemur á daginn að konur voru með 24,9% lægri laun en karlar árið 2000 en sjö árum síðar er munurinn 18,5%.

Ýmsir þættir geta skýrt launamuninn að hluta til en þegar sérfræðingar Hagstofunnar sundurliða launamuninn með svonefndri aðhvarfsgreiningu stendur eftir 7,3% óútskýrður launamunur. Þetta er sú gjá sem ekki verður skýrð með mismunandi menntun, starfsaldri eða á annan hátt en sem kynbundinn launamunur á almenna vinnumarkaðinum. Sé litið á þróunina þessi sjö ár kemur m.a.s. á daginn að óútskýrði launamunurinn hefur aukist ef eitthvað er.

 Það kemur niður á konum að eiga lítil börn

Kristín segir þessar niðurstöður staðfesta fyrri kannanir sem leitt hafa í ljós kynbundinn launamun á almenna vinnumarkaðinum. Í þessari könnun mælist hann þó minni en fram hefur komið í ýmsum öðrum könnunum.

Kristín segir að sú niðurstaða að sá munur á launum karla og kvenna sem hægt er að skýra hafi minnkað á þessu tímabili stafi hugsanlega af því að aukin menntun kvenna sé farin að skila sér.

Óútskýrði launamunurinn hefur á hinn bóginn aukist eins og áður segir og segir Kristín hugsanlegt að góðærið hafi á einhvern hátt skilað körlum meiri launum en konum.

Fram kemur að 70% fyrirtækja sem skoðuð voru í rannsókninni eru á höfuðborgarsvæðinu. Að mati Kristínar væri fróðlegt sjá hver skiptingin er eftir landshlutum. Könnun Félagsvísindastofnunar árið 2008 leiddi í ljós verulega meiri launamun á milli kynjanna á landsbyggðinni en í þéttbýlinu.

En hefur munurinn eitthvað breyst á síðustu tveimur árum og í efnahagskreppunni? Ekkert liggur enn fyrir um það en leiða má líkum að því að mati Kristínar að heldur hafi dregið úr launamuninum, þar sem fyrirtæki hafa dregið saman seglin og skorið niður aukagreiðslur af öllu tagi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert