Stjórn Blaðamannafélags Íslands hefur sent frá sér ályktun þar sem hún skorar á stjórnvöld að eyða óvissu vegna úreltra prentlaga. Er ályktunin send í kjölfar þess að Hæstiréttur þyngdi nýlega dóm yfir blaðamanni DV vegna ummæla sem höfð voru eftir viðmælanda hans í blaðinu.
Ályktun frá stjórn Blaðamannafélags Íslands
Stjórn Blaðamannafélags Íslands skorar á stjórnvöld að eyða réttaróvissu vegna úreltra prentlaga. Stjórnin vekur athygli á að Hæstiréttur Íslands hefur nýlega þyngt dóm yfir blaðamanni DV vegna ummæla sem höfð eru eftir viðmælanda í grein blaðsins. Fyrir liggur skýr vilji löggjafans í nýlegu frumvarpi um að samræma prentlög og útvarpslög að þessu leyti og tryggja að viðmælendur beri sinn hluta ábyrgðarinnar. Blaðamannafélagið hefur ásamt útgáfufélagi DV vísað slíku máli til Mannréttindadómstóls Evrópu. Það hindrar tjáningarfrelsi og setur vinnubrögð blaðamanna í vandasömum málum í uppnám að hægt sé að gera blaðamenn ábyrga fyrir ummælum viðmælenda. Á því verður að ráða bót.