Úrskurður um stjórnvaldssekt Haga stendur

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið af kröfu Haga um að ógilda þá niðurstöðu samkeppnisyfirvalda  að Hagar greiði 315 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna alvarlegra brota á samkeppnislögum í verðstríði matvöruverslana árið 2005.

Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í desember 2008, sem áfrýjunarnefnd samkeppnismála og nú héraðsdómur hafa staðfest, var komist að þeirri niðurstöðu að Hagar (sem reka m.a. verslunarkeðjurnar Bónus, Hagkaup og 10-11) hefðu misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem beindust gegn keppinautum félagsins á matvörumarkaði. Brot Haga á samkeppnislögum var talið felast í undirverðlagningu sem félagið greip til á árunum 2005 og 2006.

Brot Haga áttu sér stað í svonefndu verðstríði lágvöruverðsverslana sem hófst í lok febrúar 2005 þegar Krónan í eigu Kaupáss kynnti allt að 25% verðlækkun á algengustu flokkum dagvara.

„Hagar misnotuðu markaðsráðandi stöðu sína með því að selja mjólk og mjólkurvörur undir kostnaðarverði í verslunum Bónuss í langan tíma. Voru helstu mjólkurafurðir seldar með stórfelldu framlegðartapi og leiddi þetta til þess að verslanir Bónuss voru í heild reknar með tapi. Það var því mat Samkeppniseftirlitsins að í verðlagningunni hafi falist ólögmæt undirverðlagning og að háttsemin hafi verið til þess fallin að viðhalda og styrkja með óeðlilegum hætti stöðu Haga á markaðnum fyrir sölu á dagvörum í matvöruverslunum. Jafnframt sýndi rannsóknin að brotin voru umfangsmikil," segir m.a. á vef Samkeppniseftirlitsins.

Að mati stofnunarinnar voru aðgerðir Haga til þess fallnar að útiloka helstu keppinauta, s.s. lágvöruverðsverslanir í eigu Kaupáss (Krónuna) og Samkaupa (Nettó og Kaskó) frá samkeppni og þar með veikja þau fyrirtæki sem keppinauta á markaðnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert