Stjórnendur Tækniskólans segja, að þeim sé mjög annt um velferð nemenda sinna og orðspor skólans. Neysla fíkniefna sé bölvaldur sem skólinn vilji forða nemendum sínum frá. Í þeim tilgangi einum hafi verið gripið til fíkniefnaskimunar í skólanum.
Þetta kemur fram á heimasíðu skólans þar sem fjallað er um leit lögreglu og tollgæslumanna að fíkniefnum í skólanum 11. febrúar. Hafa þessar aðgerðir sætt gagnrýni og meðal annars orðið tilefni fyrirspurna frá umboðsmanni Alþingis.
Fram kemur, að skólinn hafði fyrst samband við þessi lögreglu og tollgæslu á síðasta ári og óskaði eftir samstarfi um slíka heimsókn. Um síðustu jól var gerð forkönnun í skólahúsinu af hálfu lögreglu og tollgæslu þar sem farið var með hunda um skólann. Ekkert fannst í þeirri heimsókn en ákveðið að skima húsið aftur þegar nemendur og starfsmenn væru komnir til starfa eftir frí.
Skimunin nú var gerð í húsnæði skólans að Skólavörðuholti í hádegishléi. Allir inngangar voru vaktaðir af starfsmönnum og nemendum og starfsmönnum bent að fara út um aðalinnganginn. Þar var öllum heimilt að fara inn og út. Forvarnarfulltrúi skólans var ásamt lögregluþjóni með hund við þann inngang.
„Á þessum tíma voru nemendur ýmist í kennslu, í matsal eða á göngum skólans. Ferðafrelsi um skólann var ekki hindrað á nokkurn hátt. Ekki er því rétt sem haldið hefur verið fram að nemendum hafi verið meinaður aðgangur að skólanum eða verið lokaðir inni á meðan að skimunin fór fram. Engin fíkniefni fundust á nemendum skólans, en höfð voru afskipti af nokkrum nemendum sem vísbendingar voru um að kynnu að hafa komist í snertingu við fíkniefni og voru þeir teknir í viðtal. Rétt er að leggja áherslu á að ekki var leitað á nemendum í þessu samhengi en þeir beðnir um að tæma vasana," segir á heimasíðu skólans.
Þá kemur fram, að á meðan tollgæsla og lögregla voru að störfum í húsinu hafi öllum foreldrum nemenda yngri en 20 ára sendur tölvupóstur þar sem sagt var frá því að fíkniefnaleitarhundar væru í skólanum og framkvæmd þessarar aðgerðar skýrð. „Fjölmargir foreldrar hafa haft samband við skólann og þakkað sérstaklega fyrir hvernig staðið var að málum," segir á heimasíðunni.