Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp til laga um vinnustaðaskírteini og og eftirlit á vinnustöðum, sem sagt er byggja á stöðugleikasáttmála stjórnvalda og aðila
vinnumarkaðarins. Þar hafi verið lagt til að aðilar vinnumarkaðarins og
stjórnvöld taki upp virkt samstarf um eftirlit á vinnustöðum og
vinnustaðaskírteini í því skyni að tryggja að starfsmenn njóti umsaminna
réttinda og vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og misnotkun
atvinnuleysisbóta.
Í frumvarpinu kemur fram að atvinnurekandi skuli sjá til þess að bæði hann sjálfur og allir sem starfa á hans vegum, skuli bera á sér vinnustaðaskírteini við störf sín. Þar eigi að koma fram upplýsingar um auðkenni og kennitölu atvinnurekanda sem og nafn og kennitölu starfsmanns ásamt mynd.
Í frumvarpinu er eftirlitsfulltrúum samtaka vinnumarkaðarins, þ.e. Alþýðusambandi Íslands og Samtökum atvinnurekenda, veitt heimild til að fara í eftirlitsheimsóknir á vinnustaði í því skyni að kanna hvort starfsemin sé í samræmi við lög. Þar skuli starfsmenn sýna vinnustaðaskírteini sé þess óskað. Eftirlitsaðilar áframsendi síðan þær upplýsingar sem þar komi fram til skattyfirvalda, Vinnumálastofnunar, Tryggingastofnunar ríkisins, lögreglustjóra og þegar við á til Útlendingastofnunar og Þjóðskrá.
Aðilar vinnumarkaðarins munu semja nánar um það sín milli til hvaða atvinnugreina og starfa skírteinin munu taka en fyrst um sinn verði sjónum beint að byggingariðnaði.
Félagsmálaráðherra færir í frumvarpinu þau rök fyrir því að eftirlitið verði í höndum aðila vinnumarkaðarins, að þeir aðilar hafi eftirlit með kjarasamninga og ekki hafi tíðkast að opinberir aðilar hafi eftirlit með þeim.
Frumvarp til laga um vinnustaðaskírteini hér