„Stjórnarkreppan í Hollandi auðveldar ekki lausn Icesave-málsins,“ sagði Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður utanríkismálanefndar eftir fund nefndarinnar í morgun. Á fundinum var rætt um Icesave og minnisblað sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, óskaði eftir fundi í nefndinni til að ræða minnisblað Sams Watson, sem stýrir sendiráði Bandaríkjanna hér á landi, en minnisblaðinu var lekið á síðuna Wikileaks. Á fund nefndarinnar mættu Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Kristján Guy Burgess, aðstoðarmaður ráðaherra og Einar Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu. Kristján og Einar fóru að boði Össurar til fundar við Watson til að ræða um Icesave-málið. Fundurinn var haldinn viku eftir að forseti Íslands hafnaði að undirrita Icesave-lögin.
Valgerður sagði að á fundinum hefðu fulltrúar utanríkisráðuneytisins lýst samskiptum sínum við Watson. Fram hefði komið að Einar og Kristján, sem voru á fundinum með Watson, væru ekki að öllu leyti sáttir við hvernig Watson setti fram það sem þeir hefðu haft að segja.
Á fundinum var rætt um stjórnarslitin í Hollandi og hvaða þýðingu þau gætu haft fyrir lausn Icesave-málsins. Valgerður sagði alveg ljóst að staðan í hollenskum stjórnmálum auðveldaði ekki lausn málsins.