Formaður Nýs Íslands segir Kristin Arnar Jóhannesson, formann VR, greinilega genginn til liðs við þau öfl sem vilji fáu breyta fyrir hag fólksins í landinu. Það sé skrýtið að hann sé ekki meðal fólksins sem mótmælir óréttlætinu á Austurvelli.
Nýtt Ísland skoraði á Kristin og formann ASÍ að mæta til kröfufundar á Austurvelli í dag en Kristinn sagðist ekki getað tekið mark á samtökunum vegna þeirra markmið sem þau setja fram á vefsíðu sinni.
Sveinbjörn Árnason, framkvæmdastjóri NÍ, hefur sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
„... Formaður VR er greinilega genginn til liðs við öflin í landinu. Öfl sem hulin eru leyndarhjúp og vilja fáu breyta fyrir hag fólksins í landinu. Skrýtið að verkalýðsforingi sé ekki á meðal fólksins i landinu sem mótmælir óréttlætinu t.d. á Austurvelli. Kristinn Örn er málsvari verðtryggingar og inngöngu í ESB, það má sjá greinilega á heimasíðu VR.
Áður talaði Kristinn Örn um verðtryggingu sem krabbamein. Helst dettur mér í hug að formaður VR hafi ákveðið að taka stöðu gegn almenningi líkt og fjármálastofnanir og ríkisstjórn Íslands virðist hafa gert. Hvar er skjaldborg heimilanna? Kristinn Örn snýr útúr þeim góðum málefnum sem NÍ hefur sem stefnumál,kallar m.a. samtökin "Brúnstakka Þýskalands nasismans" á fasbók síðu sinni. Formaður VR er greinilega með samtökin á heilanum þar sem nokkrir stjórnarmenn VR hafa talað á útifundi á Austurvelli sem NÍ hefur haldið með öðrum grasrótarfélögum í allan vetur.
Eftir helgi munu samtökin NÍ verða skráð sem félag með kennitölu og jafnframt mun einn starfsmaður vinna að málefnum samtakanna. Við búumst við að skrá félagið og vera greiðendur hjá VR. Kannski mun formaðurinn vegna fordóma sinna neita okkur um að skrá félagið hjá VR.
Hvetjum fólkið í landinu til að mæta á Austurvöll á Alþingi götunnar.“