Forval Samfylkingarinnar í Árborg fór fram í dag og var Ragnheiður Hergeirsdóttir, núverandi bæjarstjóri Árborgar, í 1. sæti. Á eftir henni varð Eggert Valur Guðmundsson, og í 3. og 4. sæti voru þau Arna Ír Gunnarsdóttir og Kjartan Ólason.
Fimm manns buðu sig fram og var kosning bindandi fyrir fjögur efstu sætin. Samkvæmt reglum um jafnræði kynjanna, sem samþykktar voru fyrir forvalið, áttu fulltrúar af báðum kynjum að vera í fyrsta og öðru sæti og eins í þriðja og fjórða sæti. Þar sem kona varð í 1. sæti, varð sá karl sem hlaut flest atkvæði í 1. - 2. sæti í öðru sæti og þar var Eggert Valur atkvæðahæstur karlanna. Arna Ír vann síðan 3. sætið með 87,4% atkvæða. Vegna þeirrar reglu verður bindandi röð frambjóðenda sem fyrr segir.
Fyrir breytingu vegna kynjakvóta varð röð frambjóðenda þessi:
Ragnheiður Hergeirsdóttir í 1. sæti með 69,6 % atkvæða í það sæti, Arna Ír Gunnarsdóttir í 2. sæti með 41,3 % atkvæða í 1. - 2. sæti, Kjartan Ólason í 3. sæti með 47 % atkvæða í 1. - 3. sæti og Eggert Valur Guðmundsson í 4. sæti með 77,3 % atkvæða í 1. - 4. sæti. Í fimmta sæti varð Gylfi Þorkelsson, en kjör hans er ekki bindandi. Mjög litlu munaði á Eggerti og Kjartani í öllum sætum.
Kjörnefnd mun ganga frá endanlegum tillögum um fullnaðaruppstillingu á listann, sem verður síðan borinn upp á félagsfundi Samfylkingarinnar í Árborg.