„Þetta er tilhæfulaust með öllu,“sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um frétt Morgunblaðsins í dag um að hann eigi í samningamakki með Bretum og Hollendingum á bak við íslensku samninganefndina.
„Við höfum byggt upp mjög gott samstarf og það hefur verið góður trúnaður. Allt hefur verið unnið í gegnum samninganefndina. Öll samskipti hafa farið í gegnum hana eða upplýst hefur verið um þau í nefndinni. Sjálfur hafði ég engin bein samskipti við mína kollega frá og með símtali sem ég átti við Paul Myners á laugardaginn fyrir viku. Það var lykilsímtal til að koma viðræðufundunum af stað í London. Eftir það hafa öll samskipti farið í gegnum nefndina fyrir utan upplýsingar um að tölvupóstar séu á leiðinni eða eitthvað slíkt.
Við ráðfærum okkur við Lee Bucheit um hvert einasta skref. Þetta er eins tilhæfulaust „skúbb“ hjá Agnesi Bragadóttur og getur verið og mun ekki valda neinu tjóni þó að það hafi kannski verið hugsað þannig. Ég verð því að hryggja Morgunblaðið með því að tilraun til að koma illu til leiðar er dæmd til að mistakast.
Það hefur tekist mjög góður andi og samstarf í samninganefndinni þar sem stjórnarandstaðan á sinn fulltrúa og hann hefur lagt gott til málanna. Sömuleiðis held ég að við treystum alveg hvort öðru, formenn stjórnmálaflokkanna enda er nú nóg samt þó að þar væru ekki vandamál líka,“ sagði fjármálaráðherra.