InDefence hópurinn bendir á að breytt vaxtakjör eingöngu uppfylla ekki kröfuna um sanngjarna lausn á Icesave málinu. Mun veigameiri breytingar þurfa að koma til.
Í tilkynningu frá hópnum segir að þótt breytt vaxtakjör komi til verði áhætta Íslands sem fyrr allt of mikil. Skuldin verði 50% af landsframleiðslu með einungis eignasafn Landsbankans á móti. Hópurinn bendir á eftirfarandi áhættuþætti.
· óvissa ríkir um endurheimtur úr eignasafni Landsbankans
· gengisáhætta vegna samningsins er gríðarleg
· óvissa ríkir um hagvöxt innanlands á næstu árum
· enginn fyrirvari er í samningnum um það ef neyðarlögin standast ekki umfjöllun dómstóla
· enginn sveigjanleiki er ef önnur áföll falla á Ísland s.s. hrun fiskistofna eða jarðskjálftar
· endurskoðunarákvæði núverandi samnings er gildislaust
· friðhelgisafsal ríkisins er allt of víðtækt og gjaldfellingarheimildir vegna greiðslufalls einnig
· Íslendingar fá aðeins 53% af því sem endurheimtist úr eignasafni Landsbankans til að standa undir greiðslum af lágmarkstryggingunni vegna Icesave reikninganna, en mun eðlilegra væri að allar heimtur af eignum Landsbankans gengju til greiðslu lágmarkstryggingarinnar.„Hættan er sú að áföllin skelli á í bylgjum þannig að lágur hagvöxtur leiði til veikari krónu og þar með hækki skuldin á sama tíma og tekjur þjóðarinnar minnka. Bankarnir tóku ekki tillit til áhættu fyrir nokkrum árum síðan með hrikalegum afleiðingum fyrir íslenskan almenning. Í þetta skipti gæti komið til greiðslufalls íslenska ríkisins. Slík áhætta er óásættanleg og uppfyllir ekki Brussel viðmiðin um að tekið verði tillit til fordæmalausra aðstæðna á Íslandi og að hægt verði að byggja aftur upp efnahag landsins..Af öllu þessu má ljóst vera að breyting á vaxtaprósentu er fráleitt það eina sem breyta þarf til að samningar um Icesave verði ásættanlegir fyrir Ísland. Í viðræðum um nýjan samning er einfaldast og réttast að setja núverandi samning út af borðinu og byrja að nýju með hreint borð. Um 60-70% Íslendinga hafa í skoðanakönnunum sagst munu kjósa gegn núverandi samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í samningaviðræðum nú er rétt að hafa í huga að sú einarða afstaða er ekki eingöngu komin til vegna vaxtakjaranna.
InDefence hópurinn hefur frá því skrifað var undir Icesave samninga í júní haldið því fram að samningarnir séu ótækir fyrir Íslendinga. Þeir eru einhliða, ósanngjarnir og bera í sér allt of mikla áhættu fyrir Ísland. Nýir samningar um Icesave málið verða að byggja á Brussel viðmiðunum, tryggja að efnahagslegri framtíð Íslands sé ekki stofnað í hættu og taka fullt tillit til alþjóðlegrar samábyrgðar,“ segir í tilkynningu frá Indefence.
Nánar er fjallað um áhættu vegna Icesave samninga á www.indefence.is.