Breytt vaxtakjör nægja ekki

Fulltrúar InDefence á Bessastöðum með undirskriftalistana.
Fulltrúar InDefence á Bessastöðum með undirskriftalistana. Ómar Óskarsson

InDefence hópurinn bendir á að breytt vaxtakjör eingöngu uppfylla ekki kröfuna um sanngjarna lausn á Icesave málinu.  Mun veigameiri breytingar þurfa að koma til.

Í tilkynningu frá hópnum segir að þótt breytt vaxtakjör komi til verði áhætta Íslands sem fyrr allt of mikil. Skuldin verði 50% af landsframleiðslu með einungis eignasafn Landsbankans á móti. Hópurinn bendir á eftirfarandi áhættuþætti.

·         óvissa ríkir um endurheimtur úr eignasafni Landsbankans

·         gengisáhætta vegna samningsins er gríðarleg

·         óvissa ríkir um hagvöxt innanlands á næstu árum

·         enginn fyrirvari er í samningnum um það ef neyðarlögin standast ekki umfjöllun dómstóla

·         enginn sveigjanleiki er ef önnur áföll falla á Ísland s.s. hrun fiskistofna eða jarðskjálftar

·         endurskoðunarákvæði núverandi samnings er gildislaust

·         friðhelgisafsal ríkisins er allt of víðtækt og gjaldfellingarheimildir vegna greiðslufalls einnig

Af öllu þessu má ljóst vera að breyting á vaxtaprósentu er fráleitt það eina sem breyta þarf til að samningar um Icesave verði ásættanlegir fyrir Ísland. Í viðræðum um nýjan samning er einfaldast og réttast að setja núverandi samning út af borðinu og byrja að nýju með hreint borð. Um 60-70% Íslendinga hafa í skoðanakönnunum sagst munu kjósa gegn núverandi samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Í samningaviðræðum nú er rétt að hafa í huga að sú einarða afstaða er ekki eingöngu komin til vegna vaxtakjaranna.

InDefence hópurinn hefur frá því skrifað var undir Icesave samninga í júní haldið því fram að samningarnir séu ótækir fyrir Íslendinga. Þeir eru einhliða, ósanngjarnir og bera í sér allt of mikla áhættu fyrir Ísland. Nýir samningar um Icesave málið verða að byggja á Brussel viðmiðunum, tryggja að efnahagslegri framtíð Íslands sé ekki stofnað í hættu og taka fullt tillit til alþjóðlegrar samábyrgðar,“ segir í tilkynningu frá Indefence.

Nánar er fjallað um áhættu vegna Icesave samninga á  www.indefence.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert