Verkfall flugvirkja hjá Atlanta hófst á miðnætti eftir árangurslausan fund í gær. Flugvirkjar sem starfa hjá Icelandair munu hins vegar eiga fund með viðsemjendum sínum í dag, en verkfall hefst á miðnætti náist ekki samningar.
Verkfall flugvirkja sem starfa hjá Atlanta hefur ekki áhrif á flug félagsins fyrst í stað, en það gæti breyst dragist verkfallið á langinn.
Samningamenn í kjaradeilu flugvirkja hjá Icelandair setjast að samningaborði fyrir hádegi í dag hjá ríkissáttasemjara en takist ekki samningar hefst verkfall á miðnætti. Samningafundur stóð fram eftir degi í gær, en hann leiddi ekki til niðurstöðu.
Flugvirkjar lögðu upphaflega fram kröfu um 25% launahækkun. Icelandair hefur hafnað þeirri kröfu. Til umræðu hefur verið að gera samning til nokkurra mánaða, en einnig hafa menn rætt samning til lengri tíma.