„Ég ætla að leyfa mér að halda í vonina um að þá náist samkomulag þangað til annað kemur í ljós,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra eftir fund formanna flokkanna um Icesave í fjármálaráðuneytinu.
„Viðbrögð okkar munu væntanlega liggja fyrir á morgun við þessu tilboði,“ sagði Jóhanna, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið.
„Ég held að sé mikils virði að reyna að byggja á því samráði um nálgun í þessu. Á meðan er einhver von um að við séum öll sammála um hverjar kröfur okkar eigi að vera þá held ég að sé meiri líkur á því að það fáist góð niðurstaða fyrir Ísland,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins.
„Staðreyndin er sú að það er fyrst núna sem er verið að semja. Fram að þessu hefur í raun bara verið fallist á kröfur Breta og Hollendinga. Það er samningurinn sem við ednuðum með í lok síðasta árs. Það er því ekki nema von að fyrst þegar farið er að semja og setja fram kröfur, sem taka mið af þeirri stöðu sem við teljum málið vera í, bæði lagalega og efnahagslega, að þá taki einhvern tíma að þoka því áfram,“ sagði Bjarni.