Íbúar á Álftanesi komu í dag saman til fundar í grunnskóla sveitarfélagsins til að ræða þann fjárhagsvanda sem sveitarfélagið er komið í og hvað væri hægt að gera þar sem mikill niðurskurður kæmi til með að bitna á allri þjónustu.
Að sögn Brynju Guðmundsdóttur, talsmanns Hagsmunasamtaka íbúa Álftaness hafa nokkrir íbúar þegar flutt lögheimili sitt úr sveitarfélaginu og þá viti hún af fólki sem sé einnig að íhuga að flytja lögheimili sitt. Eðli málsins samkvæmt geti barnafjölskyldur ekki flutt sig, þar sem börn og unglingar séu í skóla og leikskóla á staðnum.
Brynja leggur áherslu að flutningur lögheimilis sé ekki eitthvað sem þau vilji hvetja fólk til að gera. Auðvitað vilji þau að fólk taki samfélagslega ábyrgð og hjálpist að við koma sveitarfélaginu út úr vandanum.
Vilja ekki borga fjórfalt Icesave
Brynja segir fólk búið fá nóg. Mörgum svíði að þurfa að horfa upp á hækkun gjalda á meðan að öll þjónusta sé skorin niður til að vinna á hinni slæmu fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Fjárhagsstöðu sem megi líkja við það að íbúar Álftanes taki á sig fjórfaldar Icesave byrðar. Við slíkt verði ekki unað en fjárhagsstaða sveitarfélagsins og þær byrðar sem henni fylgi geri það að verkum að fólk sé nánast í átthagafjötrum þar sem ólíklegt sé að aðrir vilji flytja í sveitarfélag sem gjöldin séu að hækka og þjónusta að skerðast.
Brynja segir margar góðar hugmyndir hafa komið fram á fundinum til að vinna á fjárhagsstöðunni. Þau hafi þar notast við þjóðfundarmódelið og nú eigi eftir að vinna úr tillögum sem komu fram.
Sem dæmi um fyrirhugaðan niðurskurð nefnir Brynja Vinnuskóla unglinga sem eigi að leggja niður í sumar. Hann kosti um 10 milljónir að reka og foreldrar líti á hann sem forvörn. Því hafi komið fram tillaga um að íbúar taki sæti í sérfræðinefndum á vegum sveitarfélagsins en með því mætti spara um fimmtán milljónir króna sem gæti þá farið í rekstur vinnuskólans.
Sveitarfélagið skuldar nú sjö milljarða en þann 9. febrúar sl. tók fjárhaldsstjórn við stjórn sveitarfélagsins og verða allar útgreiðslur úr sjóðum þess að vera samþykktar af henni. Fjárhaldsstjórnin var skipuð til 1. ágúst á þessu ári og á að gera nýja fjárhagsáætlun fyrir sveitarfélagið fyrir næstu tvö fjárhagsár.