Ísland komið á skrið

Það er búið að stofna nýtt Ísland sem rokgengur á meðan það gamla á enn í hálfgerðu basli.

Það er eiginlega merkilegt að engum hafi áður dottið í hug að koma á fót ísbúð undir nafni Íslands en Hlédís Sveinsdóttir gerði gott betur en að fá hugmyndina, heldur hrinti hún henni í framkvæmd og stofnaði nýtt Ísland í Suðurveri.

Hlédís er formaður samtakanna Beint frá býli, sem stunda sölu afurða beint frá býlum íslenskra bænda, og vildi með ísbúðinni sérstaklega koma á framfæri Holtselsísnum, sem framleiddur er á samnefndum bæ í Eyjafirði. Þá fannst henni vanta hlýlega ísbúð í borgina.

Og víst eru þær vinalegar, kusurnar sem prýða veggi Íslands enda eru þær að norðan, eins og aðalsöluvaran, Holtselsísinn. Frá Holtseli koma ýmsar forvitnilegar ístegundir, s.s. bjórís sem á nýliðnum þorra var gerður úr þorrabjór frá Árskógsströnd, hundasúruís og ís úr Fáfnisgrasi, auk hefðbundnari ísbragða. Þá er nýkominn til sögunnar jógúrtís, gerður úr sérframleiddri undanrennujógúrt frá Holtseli.

Meira að segja íssósan á sinn fulltrúa frá íslenskum bóndabæ, því í einni sósupumpunni í ísborðinu leynist fíflasýróp frá Löngumýri á Skeiðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert