Óttast fólksflótta frá Álftanesi

Íbúar Álftaness voru mættir á þingpalla til þess að hlusta …
Íbúar Álftaness voru mættir á þingpalla til þess að hlusta á umræðuna um fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Munu íbúar Álftaness að búa við værri þjónustu og hærri gjöld til lengri tíma? Óttast ráðherra ekki fólksflótta úr sveitarfélaginu og að sveitarfélagið verði álitið annars flokks? Þetta voru meðal þeirra spurninga sem Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar, beindi til Kristjáns L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í umræðum utan dagskrár um fjárhagsstöðu Álftaness og annarra sveitarfélaga á Alþingi fyrr í dag.

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, rifjaði upp að tekjur sveitarfélaga hafi  dregist verulega saman á sama tíma og útgjöld hafi aukist á síðustu misserum. Sagði hann efnahagskreppan hafa bitnað hvað harðast á þeim sveitarfélögum þar sem mikil uppbygging fór fram í aðdraganda hrunsins, að mestu fyrir erlent lánsfé. Sagði hann það vonbrigði að þurft hafi að skipa sveitarfélagi Álftaness fjárhaldsstjórn.

Sagði hann ljóst að hvorki væri hægt að rétta af fjárhagsstöðu sveitarfélagsins með hærri útgjöldum og miklum niðurskurði á þjónustu einu saman. Sagði hann slíkt aðeins geta gagnast til skamms tíma, enda ljóst að hvoru tveggja væri háð sársaukamörkum. Lagði hann áherslu á að mikilvægt væri að hlusta á tillögur íbúa um hvernig staðinn verði vörður um þjónustuna í sveitarfélaginu þrátt fyrir niðurskurð og þjónustuskerðingu. 


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði bága fjárhagsstöðu Álftaness ekki einsdæmi á landinu. Sagði hún bæði mikilvægt og eðlilegt að íbúar Álftaness hafi skoðun á því hvernig staðið sé að sparnaði í sveitarfélaginu. Að hennar mati á ekki að þvinga Álftnesinga til að sameinast nágrannasveitarfélögum. Gerði hún úthlutun úr jöfnunarsjóði  að umtalsefni og sagðist sammála þeim sem bent hefði á að sú úthlutun væri ekki sanngjörn í ljósi þess að hlutfall barna og unglinga í sveitarfélaginu væri 40% hærra en í öðrum sveitarfélögum landsins.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, sagði ljóst að mörg sveitarfélög í landinu væru í bágri stöðu. „Hvað á að gera? Á að láta íbúa Álftaness bera þessar skuldabyrgðar einir? Eða kemur samning til greina?“ spurði Siv og spurði einnig hvort ekki væri hægt að kanna vilja Álftnesinga til sameiningar í komandi kosningum um Icesave þannig að niðurstaðan lægi fyrir áður en kemur að komandi sveitarstjórnarkosningum í vor.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, sagðist sem íbúi á Álftanesi fagna umræðunni. Benti hann á að íbúar sveitarfélagsins geti sem betur fer sýnt óánægju sína með sveitarstjórnarfulltrúa sína í komandi sveitarstjórnarkosningum. Sagði hann fyrirhugaðar álögur og sparnaðartillögur aðeins þolanlegar til skamms tíma, en vari ástandið í lengri tíma en eitt ár sé ljóst að íbúar muni í unnvörpum flýja sveitarfélagið.

Hvatti hann menn til þess að taka ekki ákvörðun um málefni Álftaness í flýti heldur bíða fram yfir komandi sveitarstjórnarkosninga og í góðu samráði við íbúa. Sagði hann ljóst að afleit staða Álftaness væri afrakstur af vondum ákvörðunum fjögurra manna, þ.e. meirihluta sveitarstjórnar. Benti hann á að í Reykjavík gætu átta manns sett eitt sveitarfélag á hliðina. Sagði hann ljóst að sameining við Garðabæ leysti ekki allt. Frekar ætti að skoða mun víðtækari sameiningu á höfuðborgarsvæðinu öllu. 

Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði það hljóta að vera lykilatriðið í umræðunni hver beri  ábyrgð á þeim fjárfestingum sem gerðar voru í sveitarfélaginu. Minnti hún á að sveitarfélögum beri að veita lögbundna þjónustu. Spurði hún hvort hægt væri að banna sveitarfélögum að taka lán í annarri mynt en tekjur þess eru. 

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri græna, tók undir það með Guðfríði Lilju um að endurskoða ætti úthlutunarreglur úr jöfnunarsjóði sveitarfélaga þannig að tekið væri aukið tillit til aldurssamsetningar í sveitarfélögum. Að hans mati á ekki að nota þá stöðu sem nú er upp komin til þess að þvinga Álftnesinga til sameiningar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert