11% aukning á opinberum útgjöldum

Tapaðar kröfur Seðlabankans eru ekki taldar með í útgjöldum hins …
Tapaðar kröfur Seðlabankans eru ekki taldar með í útgjöldum hins opinbera fyrir árið 2008 mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Útgjöld hins opinbera hafa vaxið um nálægt 11 prósentustig af landsframleiðslu eða úr 34,1% af landsframleiðslu í 44,8% á 28 ára tímabili. Það er frá árinu 1980 til ársins 2008. 192 milljarða króna yfirtaka ríkissjóðs á töpuðum kröfum Seðlabanka Íslands 2008 er þá ekki meðtalin.

Á sama tíma jukust útgjöld ríkissjóðs úr 27,5% af landsframleiðslu árið 1980 í 32,2% árið 2008 og útgjöld sveitarfélaga úr 7,1% af landsframleiðslu 1980 í 14,0% 2008.

Mikill vöxtur í útgjöldum sveitarfélaga

Mikill vöxtur í útgjöldum sveitarfélaga skýrist m.a. af yfirtöku verkefna frá ríkissjóði (eins og grunnskólans) en einnig hefur þjónusta þeirra vaxið jafnt og þétt. Útgjöld almannatrygginga hafa hins vegar vaxið minna á þennan mælikvarða eða úr 6,8% af landsframleiðslu 1980 í 7,4% árið 2008, að því er segir á vef Hagstofu Íslands.

Á föstu verðlagi (miðað við verðvísitölu samneyslunnar) hafa útgjöld hins opinbera vaxið úr 1.087 þúsund krónum á mann árið 1980 í 2.071 þúsund króna árið 2008 (án yfirtöku) og því nánast tvöfaldast (91% vöxtur) á mann á þessu tímabili.

Á sama tíma jukust útgjöld ríkisjóðs úr 875 þúsund krónum á mann í 1.492 þúsund krónur 2008 (án yfirtöku) og er raunvöxturinn rúmlega 70%. Útgjöld sveitarfélaga á mann hafa aukist mun meira eða nánast þrefaldast (185% vöxtur) á tímabilinu á þennan mælikvarða.

Útgjöldin námu 226 þúsund krónum á mann 1980 en voru 646 þúsund krónur árið 2008. Útgjöld almannatrygginga hafa vaxið úr 217 þúsund krónum á mann 1980 í 341 þúsund krónur árið 2008 og er raunvöxturinn því 57% á umræddu tímabili. 

Almannatryggingar og velferðarmál kosta mest

Almannatryggingar og velferðarmál hafa verið fjárfrekasti málaflokkur hins opinbera undanfarna áratugi en útgjöld til hans námu 132 milljörðum króna árið 2008 eða 8,9% af landsframleiðslu, en það svarar til rúmlega 307 þúsund króna á hvert mannsbarn í landinu. Til samanburðar námu útgjöldin 7,7% af landsframleiðslu 1998 eða 238 þúsund króna á mann á verðlagi 2008.

Til fræðslumála hins opinbera runnu um 124 milljarðar króna árið 2008 eða 8,4% af landsframleiðslu og hafa útgjöldin hækkað um eitt prósentustig af landsframleiðslu síðustu tíu árin.

Til heilbrigðismála hins opinbera var ráðstafað ríflega 117 milljörðum króna 2008 eða um 8% af landsframleiðslu, sem er heldur hærra hlutfall en ráðstafað var til þessa málaflokks árið 1998.

Ofangreindir þrír málflokkar hins opinbera, almannatrygginga og velferðarmála, fræðslumála og heilbrigðismála eru viðamestir og tóku til sín 25,3% af landsframleiðslu ársins 2008, en voru 22,6% af landsframleiðslu árið 1998, að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.

Hægt er að lesa nánar um þetta á vef Hagstofunnar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert