Gunnsteinn Sigurðsson, bæjarstjóri í Kópavogi, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Gunnars I. Birgissonar, fyrrverandi bæjarstjóra í Kópavogi, um að Gunnsteinn hafi komið upplýsingum frá bæjarskrifstofum Kópavogs til fjölmiðla í aðdraganda prófkjörs sjálfstæðismanna í bænum, að því er virðist í því augnamiði að leggja stein í götu Gunnars.
Gunnsteinn segir í yfirlýsingu sinni að það sé nauðsynlegt að eftirfarandi komi fram:
„Hinn 29. janúar fór bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar fram á upplýsingar um viðskipti Halldórs Jónssonar og fyrirtækis hans við bæinn sex ár aftur í tímann. Hinn 3. febrúar var fyrirspurninni svarað.
Hinn 9. febrúar barst beiðni frá blaðamanni DV um sömu upplýsingar áratug aftur í tímann. Forstöðumaður almannatengsla hjá Kópavogsbæ synjaði þeirri ósk í samráði við bæjarlögmann þar sem ekki er skylt samkvæmt upplýsingalögum að taka saman gögn vegna almennra fyrirspurna eða vinna úr þeim heldur veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum eða skjölum hjá stjórnsýslu sveitarfélagsins.
Með hliðsjón af því fékk blaðamaðurinn aðgang að þeim upplýsingum sem þegar höfðu verið teknar saman fyrir bæjarfulltrúann og náðu yfir árabilið 2003 til 2008 að báðum árum meðtöldum.
Hinn 12. febrúar barst hliðstæð beiðni frá fréttamanni Stöðvar 2 og var henni svarað á sömu leið.
Undirritaður hafði ekki frumkvæði að því að láta fjölmiðlum í té umræddar upplýsingar. Þær voru afhentar í samræmi við upplýsingalög nr. 50/1996 sem kveða á um rétt almennings til aðgangs að opinberum gögnum og skjölum.
Gunnsteinn Sigurðsson bæjarstjóri.“