Íbúum við Langholtsveg fjölgaði nýlega á einu bretti um tíu, þegar myndarlegur hópur íslenskra landnámshæna fluttist í bakgarðinn hjá Maroni Bergmann Jónassyni.
Þótt hænur séu ekki algeng gæludýr í þéttbýli virðist áhugi á þeim fara vaxandi hjá borgarbúum. Einn þeirra er Maron, sem nýlega breytti köldu geymslunni í garðinum í hænsnakofa og fékk sér þangað tíu landnámshænur. Ekki nóg með það heldur er hann svo stoltur af búskapnum að hann titlar sig nú hænsnabónda í símaskrá.
Hænurnar eru ólíkar að upplagi að sögn Marons sem segir það fjarri lagi að þær séu hver annarri líkar. Sumar séu svoddan einfarar á meðan aðrar sækja greinilega í félagsskap hverrar annarrar.
Uppáhaldshæna hins sjö ára Krumma, sonar Marons, er svört enda dálítið krummaleg að sjá. Máni Hrafn fær stundum að klappa hinum fiðruðu vinkonum sínum, en bara ef hann fer varlega að þeim.
Pabbi hans Maron segir hænsnahald henta borgarfólki ágætlega því umstangið sem fylgi þeim sé óverulegt. Hænurnar eru ekki einu heimilisdýrin hjá þeim feðgum því hjá þeim býr líka dverghamsturinn Bára og kanínan Þröstur.
Og svo eru það kettirnir í hverfinu sem hafa sína skoðun á þessum nýju nágrönnum.