Farþegar hvalaskoðunarfyrirtækisins Eldingar duttu í lukkupottinn þegar fjöldi háhyrninga, hnúfubaka og langreyður sáust rétt fyrir utan Grindavík í hvalaskoðunarferð um síðustu helgi. Veðrið hefur leikið við hvalaskoðunarfólk sunnanlands í vetur og sækja margir í ferðirnar.
Eva María Þórarinsdóttir, markaðsstjóri, Eldingar sagði að þau færu í hvalaskoðunarferðir um helgar, föstudag, laugardag og sunnudag. Vegna veðurs í Faxaflóa var báturinn færður um síðustu helgi og það lukkaðist svona vel.
Afar sjaldgæft er að sjá þennan fjölda hvala á þessum tíma árs. Um síðustu helgi sáust sex fjölskyldur háhyrninga og um tíu hnúfubakar. Á sunnudaginn var sást líka langreyður og vakti það mikla hrifningu. Langreyður er næst stærsta skepna jarðar og hefur ekki sést til hennar á hvalaskoðunarslóðum Eldingar í nokkur ár.
Elding hóf vetrarhvalaskoðun fyrst fyrir tveimur árum og hafa vinsældir hennar farið ört vaxandi og er nú orðin eftirsóknarverður afþreyingarkostur fyrir innlenda og erlenda ferðamenn á vetrarmánuðum. Veðrið í vetur hefur verið með eindæmum gott og gert það að verkum að Elding hefur varla misst úr ferð vegna veðurs.