Vilja að Íslendingar fallist á forsendurnar

Fréttamenn ræða við Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í gær.
Fréttamenn ræða við Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra, í gær. mbl.is/Kristinn

Hollensk stjórnvöld vilja, að Íslendingar fallist á grunnforsendur Icesave-tilboðs Breta og Hollendinga  áður en þau samþykkja að taka upp frekari viðræður um málið. Þetta hefur Reutersfréttastofan eftir heimildarmanni sem sagður eru þekkja til.

Heimildarmaðurinn sagði, að hollensk stjórnvöld viti að þau íslensku vilji nýjar viðræður um tilboðið, sem Bretar og Hollendingar lögðu fram í lok síðustu viku.

Hins vegar sé það afstaða Hollendinga, að Íslendingar verði að samþykkja grunnforsendur tilboðsins áður en viðræður geti hafist um það sem heimildarmaðurinn kallaði „tæknilega útfærslu" á samkomulagi.  

Fram hefur komið, að í tilboðinu felst að lagt verði 2,75% álag á breytilega vexti og að auki verði tvö ár samningstímans vaxtalaus. 

Í bréfi, sem Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra sendi Bretum og Hollendingum í gær, í nafni ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu, sem svar við tilboðinu, kemur fram að fjármálaráðherra fagni þeirri viðleitni í samkomulagsátt, sem Bretar og Hollendingar hafi sýnt með tilboði sínu, en þess er jafnframt getið að of mikið beri á milli þeirra draga sem viðræðunefnd Íslendinga kynnti á fundi með Bretum og Hollendingum í síðustu viku og þessa tilboðs, til þess að það geti orðið grundvöllur frekari samningaviðræðna.

Fjármálaráðherra lýsir því jafnframt yfir í bréfinu að Íslendingar séu reiðubúnir til frekari funda og viðræðna með fulltrúum Breta og Hollendinga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka