Leiðtogafundur norrænna höfuðborga hófst í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag. Fundinn sækja borgarstjórar, borgarfulltrúar og embættismenn frá höfuðborgum Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar, alls 24 þátttakendur.
Fundurinn er undirbúningsfundur fyrir Norræna höfuðborgarráðstefnu sem haldin verður í Kaupmannahöfn á næsta ári. Norrænar Höfuðborgarráðstefnur eru haldnar til skiptis á Norðurlöndunum á tveggja ára fresti. Markmið þeirra er að miðla reynslu og þekkingu á milli höfuðborganna. Umræðuefni leiðtogafundarins að þessu sinni eru „Fjármál sveitarfélaga, tækifæri til hagræðingar“ og „Aukin áhrif borgarbúa – íbúalýðræði.“
Í inngangserindi sínu í dag fjallaði Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri í Reykjavík, um viðbrögð Reykjavíkurborgar við þrengingum í íslensku efnahagslífi. Fjármál sveitarfélaganna, íbúalýðræði og samstarf við starfsmenn um hagræðingaraðgerðir verða í brennidepli á fundinum á morgun. Jafnframt mun Frank Jensen, borgarstjóri Kaupmannahafnar, fjalla um þema næstu Norrænu höfuðborgarráðstefnu í Kaupmannahöfn 2011, samkvæmt tilkynningu.