Söguskýring bandaríska sendifulltrúans röng

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson Kristinn Ingvarsson

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, segir að varast beri að taka of mikið mark af minnisblöðum sem skrifuð eru upp einhliða og eftir fundi. Þetta sagði hann í umræða utan dagskrár um samskipti íslenskra stjórnvalda og erindreka við fulltrúa bandarískra stjórnvalda.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, hóf umræðuna vegna minnisblaðs sem ritað var af Sam Watson, sem veitir bandaríska sendiráðinu forstöðu um þessar mundir, í kjölfar fundar í sendiráðinu í janúar sl. Bjarni benti m.a. á, að þetta eina minnisblað liggur fyrir en aðeins munnmæli fulltrúa utanríkisráðherra. 

Í minnisblaðinu kemur fram að breski sendiherrann á Íslandi reyndi fyrir mánuði að fá Norðmenn til að gefa út fjárhagslega ábyrgð á Icesave-skuldinni þannig að Norðmenn myndu lána Íslendingum fyrir skuldbindingunni og sjá síðan um að innheimta skuldina hjá Íslendingum.

Í minnisblaðinu er einnig sagt frá fundi sem bandaríski sendifulltrúinn átti með Hjálmari W. Hannessyni, sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. Hjálmar sagði á fundinum að stjórnarkreppa yrði á Íslandi ef þjóðin felldi Icesave í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hjálmar sagðist þekkja Ólaf Ragnar Grímsson vel og sagði að hann væri óútreiknanlegur.

Margt í minnisblaðinu rangt

Össur sagði margt í minnisblaðinu ekki rétt, og vísað til hluta sem sem íslenska ríkisstjórnin á ekki aðild að. Össur segir að á fundinum hafi verið farið yfir það sem var í gangi í íslensku þjóðfélagi þá daganna. Meðal annars hafi verið farið yfir bréf sem sent var forseta íslands áður en hann synjaði Icesave-lögunum staðfestingar.

Fundurinn hafi verið hluti af fundarlotu og að þessu sinni hafi verið haft samband við öll sendiráð, til að greiða fyrir því, að efnahagsáætlun Íslands yrði tekin fyrir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Endurspeglar skoðun ríkisstjórnarinnar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, segir það hafa komið sér skemmtilega á óvart að fulltrúar utanríkisráðherra hafi talað máli Íslands á fundinum. Annar hafi verið verra, s.s. umræða um hættuna á greiðslufalli þjóðarinnar og mikilvægi þess að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Sigmundur segist ljóst að á fundinum hafi fulltrúarnir verið að ræða um það sama og ráðherrar ríkisstjórnarinnar sögðu á þessum tíma. Það sé einmitt vandamálið, þ.e. hvernig ríkisstjórnin hefur talað í málum og endurspeglist í minnisblaðinu.

Fær ekki Nóbelsverðlaun

Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, sagðist ekki þekkja Sam Watson, en telur hann eflaust ágætan mann. Ögmundur efast þó um að hann fái Nóbelsverðlaun í sagnfræði og ætlar að láta starfsmenn ráðuneytisins njóta vafans.

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, tók undir með Ögmundi og sagði ljóst að ekki sé hægt að treysta einhliða skrifuðu minnisblaði af fundi sem þessum. Skoða þurfi skráningu annarra fundargesta.

Að endingu sagði Össur að Sigmundur Davíð hefði hitt naglann á höfuðið. Fulltrúar hans hafi ekki sagt neitt annað en handhafar framkvæmdavalds hafi haldið fram, til að mynda í ræðustól á Alþingi. 

Þá sagði hann Bjarna Benediktsson hættulega nálægt því að lýsa yfir, að starfsmenn utanríkisráðuneytisins segi ekki satt. Hann hefði betur komið á fund utanríkismálanefndar Alþingis síðastliðinn laugardag þar sem hann hefði getað spurt þá sjálfa út í fundinn og minnisblaðið. Bjarni hafi hins vegar ekki mætt vegna anna, og það þrátt fyrir að biðja um fundinn sjálfur.

Bjarni Benediktsson á Alþingi.
Bjarni Benediktsson á Alþingi. mbl.is/Ómar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka