Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, sagði á Alþingi í dag að 170 einstaklingar hafi verið teknir til skýrslutöku hjá sérstökum saksóknara, af þeim hafa á milli fjörutíu og fimmtíu réttarstöðu sakbornings. Sextíu mál hafa verið tekin til rannsóknar en kæru vísað frá í sautján og einu vísað til annars embættis.
Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði dómsmálaráðherra út í rannsókn sérstaks saksóknara. Var hann ánægður með svörin sem hann sagði næsta tæmandi.
Ragna benti á að þegar embættið tók til starfa voru fjórir fastráðnir starfsmenn. Í dag eru þeir 25 og mun fjölga um þrjá á næstunni. Auk þess eru sjö erlendir sérfræðingar til halds og trausts.
Einnig nefndi Ragna að skilanefndir föllnu bankanna hafi fengið erlenda sérfræðinga til að fara yfir gögn þeirra og leiki grunur á saknæmu athæfi ber þeim að vísa málum til embættis sérstaks saksóknara.