Vegagerðin stefnir að því að framlengja samning við Eimskip um rekstur Herjólfs til fyrsta september á næsta ári, að því fréttavefur Eyjafrétta greinir frá. Bæjarstjórn Vestmannaeyja hafði lýst áhuga á að taka við rekstri skipsins þegar siglingar hefjast milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar 1. júlí í sumar.
Í samningsdrögunum við Eimskip segir að hækki hafnargjöld í Vestmannaeyjum hækki gjaldskrá Herjólfs um leið. Bæjarráð Vestmannaeyja kveðst ekki geta samþykkt þær forsendur sem samningur Eimskipa og samgönguyfirvalda gerir ráð fyrir. Í nýlegri bókun bæjarráðsins segir m.a.:
„Vestmannaeyjahöfn mun ekki axla ábyrgð á gjaldskrá Eimskipa og Vegagerðarinnar og mun gjaldheimta hafnarinnar eiga við um Herjólf eins og aðra þjónustuþega hennar.“
Stefnt er að því að fjölga ferðum ferjunnar á hverjum degi eftir að siglingar hefjast í Landeyjahöfn. Samkvæmt samningsdrögunum á því að velta hærri hafnargjöldum, vegna fleiri ferða yfir á farþegana.
Þá munu bæjaryfirvöld í Eyjum hafa viljað að skipið sigldi fleiri ferðir á hverju ári en gert er ráð fyrir í samningsdrögunum milli Eimskips og Vegagerðarinnar.