Töluvert miklar breytingar þarf að gera á stjórnkerfinu og skipulagsheildum til að Ísland geti talist tækt inn í Evrópusambandið. Þetta sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, á Alþingi í dag. Of snemmt er hins vegar á vegferðina komið til að hægt sé að kveða upp úr um kostnað eða ársverk.
Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, varaþingmaður Framsóknarflokks, spurði utanríkisráðherra út í þær stjórnsýslubreytingar sem gera þarf vegna mögulegrar aðildar að Evrópusambandinu, t.a.m. hvaða stofnunum eða skipulagsheildum nauðsynlegt er að koma á fót, hver áætlaður kostnaður er við þá framkvæmd og hvað er áætlað að framangreindar breytingar kalli á mörg viðbótarársverk í stjórnkerfinu.
Össur sagði að ýmsar þjóðir hafi þurft að gera gríðarlega miklar breytingar en þær verði miklu minni þar sem Ísland er aðili að EES og Schengen-samstarfinu. Fyrst og fremst eru breytingarnar á sviði landbúnaðar og byggðarmála. Hins vegar verði horft sem mest má til hagræðingar og til núverandi skipulags og stofnanna.
Í kjölfarið komu nokkrir þingmenn Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna upp í ræðustól og gagnrýndu þá ákvörðun að hefja viðræður, og einnig rýr svör ráðherrans.
Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, minnti samþingmenn sína af landsbyggðinni á að flokkurinn hafi ályktað að fara í aðildarviðræður með skilyrðum. Stór hópur framsóknarmanna sé einnig ánægður með aðildarviðræður. Siv segir málið í eðlilegu ferli og spennandi verður að sjá hvaða samningur verður á borðinu eftir viðræðurnar og þjóðin fær að kjósa um.
Kristján L. Möller, samgönguráðherra, sagði daginn hátíðisdag. Hann þakkaði Framsóknarflokknum fyrir sinn stuðning þegar kom að því að samþykja að fara út í þessa vegferð. Þrír þingmenn flokksins hafi verið því fylgjandi.
Árni Johnsen, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði til skammar að stjórnvöld skuli ætla að laga íslenska stjórnkerfið að þörfum ESB án þess að það liggi fyrir hvort landið gangi í sambandið. Hann sagði ekki þingmeirihluta fyrir inngöngu né þjóðarvilja.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist á þeirri skoðun að halda eigi áfram á þessari vegferð. Enda verði það þjóðarinnar að skera úr um hvort Ísland gangi inn í ESB á endanum. Þegar viðræðum er lokið og samningur liggur fyrir.
Össur lauk svo umræðunni með þeim orðum, að ekki sé hægt að svara til um kostnað vegna þess að það á eftir að semja um hann. Ekki er hægt að bera Ísland saman við aðrar þjóðir vegna smæðarinnar. Hann sagðist ætla að hlusta á ólík viðhorf og ná niðurstöðu sem er hvað hagfelldust fyrir Ísland. Lögum verði ekki breytt nema Alþingi samþykki þau.