Štefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, sagði á blaðamannafundi í Brussel í dag, að Íslendingar fengju enga flýtimeðferð í aðildarferlinu heldur væri farið eftir sömu reglum og beitt væri í viðræðum við önnur lönd.
Füle sagðist afar ánægður með ákvörðuninni í dag væri tryggt, að stækkun Evrópusambandsins ætti sér ekki einungis stað í suðausturátt heldur einnig í norðvestur.
Füle var spurður á blaðamannafundinum hve langan tíma búast mætti við að aðildarviðræðurnar myndu standa. Hann sagði, að viðræðurnar við Finna og Austurríkismenn hefðu tekið 12-14 mánuði á sínum tíma. Þá gæti staðfestingarferlið, náist aðildarsamningar, tekið 12-18 mánuði.
Hann var spurður hver munurinn væri á Íslandi og Króatíu, en bæði löndin hefðu sótt um aðild. Füle sagði, að Íslendingar hefðu þegar tekið upp stóran hluta af lagabálki Evrópusambandsins í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.
Füle var á blaðamannafundinum ítrekað spurður um áhrif Icesave-deilunnar á aðildarviðræðurnar. Sagði hann að framkvæmdastjórnin fylgdist grannt með viðræðum Íslands við Breta og Hollendinga um Icesave en liti á það sem sem tvíhliða mál sem hefði ekki áhrif á aðildarviðræður Íslendinga við ESB. Það sama gilti um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi.
Þá sagði hann að framkvæmdastjórnin fylgdist vel með pólitískri þróun á Íslandi. Ísland hefði sótt um aðild í samræmi við ákvörðun Alþingis. Þá sagðist hann vona, að einróma niðurstaða framkvæmdastjórnarinnar í dag muni ýta undir stuðning Íslendinga við aðild að ESB.
Fram kom á fundinum, að miðað við fólksfjölda yrðu Íslendingar 0,06% af heildarfjölda íbúa Evrópusambandsins og verg landsframleiðsla yrði 0,08% af heildarlandsframleiðslu aðildarríkjanna. En Füle sagði að stærðin skipti ekki öllu máli. Ísland væri þróað lýðræðisríki með sömu gildi og önnur aðildarríki og því myndi aðild Íslands styrkja sambandið.