Ísland fær ekki flýtimeðferð

Štefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins.
Štefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins. Reuters

Štefan Füle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, sagði á blaðamannafundi í Brussel í dag, að Íslendingar fengju enga flýtimeðferð í aðildarferlinu heldur væri farið eftir sömu reglum og beitt væri í viðræðum við önnur lönd.

Füle sagðist afar ánægður með ákvörðuninni í dag væri tryggt, að stækkun Evrópusambandsins ætti sér ekki einungis stað í suðausturátt heldur einnig í norðvestur. 

Füle  var   spurður á blaðamannafundinum hve langan tíma búast mætti við að aðildarviðræðurnar myndu standa. Hann sagði, að viðræðurnar við Finna og Austurríkismenn hefðu tekið 12-14 mánuði á sínum tíma. Þá gæti staðfestingarferlið, náist aðildarsamningar,  tekið 12-18 mánuði.

Hann var spurður hver munurinn væri á Íslandi og Króatíu, en bæði löndin hefðu sótt um aðild. Füle sagði, að Íslendingar hefðu þegar tekið upp stóran hluta af lagabálki Evrópusambandsins í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.

Füle var á blaðamannafundinum ítrekað spurður um áhrif Icesave-deilunnar á aðildarviðræðurnar. Sagði hann að framkvæmdastjórnin fylgdist grannt með viðræðum Íslands við Breta og Hollendinga um Icesave  en liti á það sem sem tvíhliða mál sem hefði ekki áhrif á aðildarviðræður Íslendinga við ESB. Það sama gilti um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu á Íslandi.

Þá sagði hann að framkvæmdastjórnin fylgdist vel með pólitískri þróun á Íslandi. Ísland hefði sótt um aðild í samræmi við ákvörðun Alþingis. Þá sagðist hann vona, að einróma niðurstaða framkvæmdastjórnarinnar í dag muni ýta undir stuðning Íslendinga við aðild að ESB.

Fram kom á fundinum, að miðað við fólksfjölda yrðu Íslendingar 0,06% af  heildarfjölda íbúa Evrópusambandsins og verg landsframleiðsla yrði 0,08% af heildarlandsframleiðslu aðildarríkjanna. En Füle sagði að stærðin skipti ekki öllu máli. Ísland væri þróað lýðræðisríki með sömu gildi og önnur aðildarríki og því myndi aðild Íslands styrkja sambandið. 

Skýrsla framkvæmdastjórnar ESB um aðild Íslands

Blaðamannafundur Füle

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert