Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins samþykkti á fundi sínum í dag, að mæla með því að aðildarviðræður verði hafnar við Ísland og segir landið almennt vel undir slíka aðild búið. Štefan Füle, nýr stækkunarstjóri Evrópusambandsins hefur boðað blaðamannafund nú á hádegi þar sem þetta verður tilkynnt formlega.
Bloomberg fréttastofan vitnar í skýrslu, sem framkvæmdastjórnin samþykkti í dag, þar sem segir að Ísland fylgi sameiginlegum gildum Evrópusambandsins, svo sem um lýðræði, mannréttindi og virðingu fyrir lögum. Hins vegar er í skýrslunni einnig fjallað um ýmislegt sem gæti valdið erfiðleikum í aðildarviðræðum.
„Ísland er í heild vel búið undir að axla skyldur aðildar á flestum sviðum," segir í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar, samkvæmt frétt þýsku fréttastofunnar DPA. Hins vegar sé ljóst að Íslendingar þurfi að laga löggjöf sína að löggjöf Evrópusambandsins á ýmsum sviðum, einkum varðandi sjávarútveg, landbúnað, byggða- og þróunarmál, umhverfismál, frjálst flæði fjármagns og fjármálastarfsemi.
Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins þurfa að samþykkja tillögu framkvæmdastjórnarinnar áður en aðildarviðræður geta hafist við Ísland.
Skýrsla framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins