Eftir Agnesi Bragadóttur
Í niðurlagi bréfs Breta og Hollendinga frá því sl. föstudagskvöld, sem inniheldur gagntilboð landanna til Íslendinga um Icesave-samninginn, segir orðrétt „Þetta er okkar besta boð“ (e. This is our best offer).
Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins spunnust talsverðar umræður um það á fundum forystumanna stjórnmálaflokkanna og íslensku viðræðunefndarinnar í Icesavemálum nú um helgina, hvort líta bæri á þessa setningu sem afdráttarlausa yfirlýsingu breskra og hollenskra stjórnvalda í þá veru að þetta væri þeirra lokatilboð og um annað yrði ekki samið af hálfu bresku og hollensku þjóðanna. Ef marka má fyrstu en óformlegu viðbrögð Breta og Hollendinga við bréfi fjármálaráðherra, er talið allt eins líklegt að nýr samningafundur Breta, Hollendinga og Íslendinga verði í dag eða á morgun í Lundúnum.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins kvaðst Lee Buchheit, bandaríski sérfræðingurinn sem fer fyrir íslensku viðræðunefndinni, vera undrandi á því orðalagi sem Bretar og Hollendingar notuðu í tilboði sínu, um sitt besta boð. Slíkt orðalag væri óvenjulegt á þessu stigi málsins. Hann mun jafnframt hafa greint forystumönnum stjórnmálaflokkanna frá þeirri skoðun sinni að hugsanlega væri hér um samningatæknilegt atriði að ræða hjá Bretum og Hollendingum og það þyrfti einfaldlega að koma í ljós hvort Bretar og Hollendingar væru reiðubúnir til þess að setjast að samningaviðræðum með Íslendingum á nýjan leik.
Í gærkvöldi var allt eins búist við nýjum viðræðufundi í Lundúnum í dag eða á morgun. Buchheit er nú þegar kominn til Lundúna.