Ólafur Þ. Stephensen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og 24 stunda, hefur verið ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins. Hann tekur við starfinu af Jóni Kaldal sem lætur af störfum í dag. Jón hefur verið ritstjóri Fréttablaðsins frá árinu 2007.
Auk þess að sinna ritstjórn Fréttablaðsins mun Ólafur vinna að því að auka samstarf fréttaritstjórna 365 miðla, samkvæmt fréttatilkynningu.
„Ég lít á starfið hjá Fréttablaðinu sem frábært tækifæri til að vinna áfram við blaðamennsku. Fréttablaðið á mikil sóknarfæri á blaðamarkaðnum að mínu mati og ég hlakka til að taka þátt í að nýta þau tækifæri," segir Ólafur Þ. Stephensen, í fréttatilkynningu frá 365 miðlum.
Ólafur Þ. Stephensen er 41 árs og hefur starfað við blaðamennsku og tengd störf frá 1987. Hann var ritstjóri Morgunblaðsins 2008-2009 og ritstýrði þar áður fríblaðinu 24 stundum.
Hann var aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins um sjö ára skeið og áður blaðamaður þess í meira en áratug. Hann var forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála Símans 1998-2000 og forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins 2000-2001.
Ólafur er með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MSc-gráðu í alþjóðastjórnmálum frá London School of Economics and Political Science. Þá hefur hann í vetur lagt stund á diplómanám við IESE-viðskiptaháskólann í Barcelona á Spáni.
Ólafur er kvæntur Halldóru Traustadóttur, forstöðumanni reksturs útibúa hjá Íslandsbanka. Þau eiga þrjú börn.