Ólafur Þ. Stephensen nýr ritstjóri Fréttablaðsins

Ólafur Þ. Stephensen.
Ólafur Þ. Stephensen.

Ólafur Þ. Stephensen, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins og 24 stunda, hefur verið ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins. Hann tekur við starfinu af Jóni Kaldal sem lætur af störfum í dag. Jón hefur verið ritstjóri Fréttablaðsins frá árinu 2007.

Auk þess að sinna ritstjórn Fréttablaðsins mun Ólafur vinna að því að auka samstarf fréttaritstjórna 365 miðla, samkvæmt fréttatilkynningu.

 „Ég lít á starfið hjá Fréttablaðinu sem frábært tækifæri til að vinna áfram við blaðamennsku. Fréttablaðið á mikil sóknarfæri á blaðamarkaðnum að mínu mati og ég hlakka til að taka þátt í að nýta þau tækifæri," segir Ólafur Þ. Stephensen, í fréttatilkynningu frá 365 miðlum.

 Ólafur Þ. Stephensen er 41 árs og hefur starfað við blaðamennsku og tengd störf frá 1987. Hann var ritstjóri Morgunblaðsins 2008-2009 og ritstýrði þar áður fríblaðinu 24 stundum.

Hann var aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins um sjö ára skeið og áður blaðamaður þess í meira en áratug. Hann var forstöðumaður upplýsinga- og kynningarmála Símans 1998-2000 og forstöðumaður stefnumótunar- og samskiptasviðs Samtaka atvinnulífsins 2000-2001.

Ólafur er með BA-próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MSc-gráðu í alþjóðastjórnmálum frá London School of Economics and Political Science. Þá hefur hann í vetur lagt stund á diplómanám við IESE-viðskiptaháskólann í Barcelona á Spáni.

Ólafur er kvæntur Halldóru Traustadóttur, forstöðumanni reksturs útibúa hjá Íslandsbanka. Þau eiga þrjú börn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert