Annir hjá björgunarsveitunum

Þungfært er víða um land
Þungfært er víða um land mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Annir hafa verið hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Vestmannaeyjum, Sandgerði og á Suðurnesjum í morgun vegna snjókomu og ófærðar. SBK sinnir ekki strætóferðum á Suðurnesjum sem stendur vegna ófærðar. Mikil ófærð er í Reykjanesbæ og hafa björgunarsveitarmenn og lögregla vart undan við að aðstoða ökumenn sem lent hafa í vandræðum.

Samkvæmt upplýsingum frá björgunarsveitarmönnum í Reykjanesbæ er mjög mikið að gera og ekki hægt að veita öllum aðstoð strax. Björgunarsveitarmenn þar reyna að halda helstu stofnleiðum bæjarfélagsins opnum og að koma starfsfólki heilbrigðisstofnana til vinnu. Öðrum útköllum verður ekki hægt að sinna fyrr en undir hádegi.

Björgunarfélag Vestmannaeyja var kallað út um klukkan sex í morgun og hafa meðlimir þess unnið hörðum höndum við að aðstoða samborgara sína við að komast leiðar sinnar en mikil ófærð er í Vestmannaeyjum. Er búist við að sveitin verði við störf fram að hádegi hið minnsta.
 
Björgunarsveitin Sigurvon frá Sandgerði hefur frá því klukkan sjö í morgun aðstoðað á annan tug bílstjóra sem sátu fastir í bílum sínum og enn liggja fyrir mörg verkefni. Mikið hefur snjóað í Sandgerði í nótt og í morgun. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka