Enn er ekkert ferðaveður í Vestmannaeyjum en mikið óveður hefur gengið yfir Heimaey síðan í nótt, kafhríð og stöðug ofankoma. Mannhæða háir snjóskaflar eru nú á götum bæjarins en illa hefur gengið að ryðja götur þar sem fennt hefur ofan í ruðninginn jafn óðum.
Snjóruðningi var hætt um tíma í morgun þar sem ekki sást handa
skil en áætlað er að hefja störf aftur eftir hádegi. Fólki er bent á að
halda sig innandyra og fara ekki út nema í algjörum neyðartilvikum, að því er segir á fréttavefnum Eyjafréttir.
Samkvæmt upplýsingum sem fengust hjá Björgunarfélagi Vestmannaeyja hefur fólki verið skutlað til og frá vinnu í morgun. „Við höfum verið með tvo bíla og sá þriðji er að bætast við núna. Staðan eins og er, er hins vegar þannig að annar bíllinn er kominn hingað inn þar sem við erum að taka meira loft úr dekkjunum og hreinsa rúðurnar. Hinn bíllinn sem við eigum er fastur út í bæ og þriðji bíllinn, sem er í eigu eins meðlima Björgunarfélagsins, er á leiðinni.
Neyðartilvik hafa algjöran forgang hjá okkur en annað er látið mæta afgangi,“ sagði Sindri Valtýsson hjá Björgunarfélaginu en 10 til 15 björgunarsveitarmenn eru á vakt eins og er.