Bílalest er nú föst við Hafnará undir Hafnarfjalli og í lestinni er m.a. snjóruðningsbíll stopp. Mikið óveður geisar á þessum slóðum. Björgunarsveitin Brák í Borgarnesi er með fjóra bíla úti og hafa björgunarsveitarmennirnir ekki komið í hús frá því um kl. 16.00 í dag.
Guðmundur Finnur Guðmundsson, í stjórnstöð Brákar, sagði að törnin hafi byrjað um klukkan fjögur í dag. Síðan eru komnar 32 beiðnir um aðstoð. Í flestum tilvikum hefur fólk ekið útaf og beðið um aðstoð.
Nú er „aðalaksjónin“ undir Hafnarfjalli, eins og Guðmundur orðaði það. Bílalest er stopp við Hafnarána. Bílstjóri á snjóruðningsbíl kvaðst sjá í næsta bíl fyrir framan og ekkert vita hvað væri að gerast. Rétt fyrir klukkan 22.00 var hann búinn að vera stopp í bílalestinni í um hálftíma.
„Okkar menn eru að ná lestinni af stað núna í átt að Borgarnesi. Svo eru aðrir að koma á móti og þar er bíll með kerru útaf,“ sagði Guðmundur. Hann sagði að engin alvarleg óhöpp hafi orðið og svo virðist sem að það sé að greiðast úr umferðahnútnum.
Undir Hafnarfjalli var um 20 m/s vindur um kl. 22.00 og upp undir 28 m/s í hviðum.
Brák hefur verið með þrjá bíla úti í allan dag og einn lánsbíl að auki. Enginn þeirra hefur komið í hús frá því Guðmundur kom í stjórnstöðina um kl. fjögur í dag.
Ríkisútvarpið greindi frá því að margir hafi beðist gistingar í Borgarnesi og allt gistipláss að verða uppurið þar í bæ.