Stjórnarfrumvarpi um siðareglur fyrir starfsmenn Stjórnarráðs Íslands var í dag vísað til annarrar umræðu og allsherjarnefndar. Forsætisráðherra mælti fyrir frumvarpinu og verði það að lögum mun hún skipa „samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna“.
Helstu verkefni samhæfingarnefndarinnar verða „að stuðla að því að siðferðileg viðmið séu í hávegum höfð í opinberum störfum og veita fjármálaráðuneytinu, sem fer með starfsmannamál ríkisins, og öðrum stjórnvöldum ráðleggingar um ráðstafanir til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra og spillingu.“
Þá á nefndin m.a. að veita umsögn um drög að siðareglum á grundvelli laganna og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.
Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á lögum um umboðsmann Alþingis, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og á lögum um ráðherraábyrgð.