InDefence til Hollands

Fulltrúar InDefence á Bessastöðum
Fulltrúar InDefence á Bessastöðum Ómar Óskarsson

InDefence hópurinn hefur fengið staðfestan fund með fjárlaganefnd hollenska þingsins þann 9. mars nk. Þetta verður fyrsti opinberi fundurinn sem íslenskir aðilar eiga með þingmönnum í Hollandi til að ræða Icesave málið, samkvæmt upplýsingum frá hópnum.

„Fundurinn fer fram þremur dögum eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave á Íslandi. Enn virðist því vera fullur vilji hjá hollenskum þingmönnum að halda áfram viðræðum þó núverandi Icesave samningar yrðu felldir í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Á fundinum mun InDefence kynna lagalega og efnahagslega stöðu Icesave málsins og afstöðu hópsins, auk þess að ræða fordæmalausar aðstæður Íslands sem vitnað er til í hinum svokölluðu Brussel viðmiðum sem þjóðirnar þrjár og Evrópusambandið undirrituðu í nóvember 2008," segir í tilkynningu frá InDefence. 
 
InDefence hópurinn hefur ítrekað orðið var við að víða erlendis gætir misskilnings um grundvallaratriði Icesave málsins og ljóst er að kynningu á málstað Íslands hefur verið verulega ábótavant, segir jafnframt í fréttatilkynningu.

InDefence hópurinn telur fundarboð nefndarinnar bera vott um eindreginn vilja hollenskra þingmanna til að kynna sér staðreyndir málsins og málstað hópsins og er ánægður með þann rúma tíma sem fundinum er ætlaður, eða ein og hálf klukkustund.
 
Gagnkvæmur skilningur málsaðila á málsatvikum og aðstæðum hvors annars er grunnurinn að sanngjarnri og réttlátri lausn á Icesave málinu. InDefence lítur á þennan fund sem mikilvægt tækifæri til að efla skilning milli þjóðanna tveggja og koma samskiptum milli þeirra í uppbyggilegan farveg," segir í tilkynningu hópsins.
 
 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert