Íslendingar sagðir hafa gengið af fundi

Sendinefnd Íslendinga gekk út af fundinum í dag, að sögn …
Sendinefnd Íslendinga gekk út af fundinum í dag, að sögn embættismanns í breska fjármálaráðuneytinu. Ómar Óskarsson

Íslenska sendinefndin gekk af fundi með fulltrúum Breta og Hollendinga um Icesave málið í dag, að því er fram kemur á fréttavef Bloomberg. Þetta er haft eftir embættismanni í breska fjármálaráðuneytinu.

ATHUGASEMD
Elías J. Guðjónsson, fjölmiðlafulltrúi fjármálaráðuneytisins, segir að heimildir Bloomberg fyrir þessu séu rangar. Í tölvupósti kl. 21.47 skrifar Elías: „Íslenska sendinefndin gekk að sjálfsögðu ekki út af fundi. Það hefði líka verið sérlega einkennilegt þar sem hann fór fram í íslenska sendiráðinu í Lundúnum.“ 

Bloombert vitnar í orð breska embættismannsins þar sem hann segir bresku og hollensku ríkisstjórnirnar vera vonsviknar yfir því að „þrátt fyrir bestu viðleitni þeirra undanfarið eitt og hálft ár sé íslenska ríkisstjórnin enn ófær um að samþykkja besta boð okkar um Icesave-lánið.“

Hollensku samningamennirnir sneru vonsviknir heim, að sögn talsmanns hollenska fjármálaráðuneytisins. ABC fréttastofan hefur eftir honum að hollenska ríkisstjórnin sé mjög vonsvikin yfir því að Íslendingar þiggi ekki þeirra „besta tilboð um Icesave-lánið, þrátt fyrir allar tilraunir okkar til þess síðasta eina og hálfa árið,“ sagði talsmaðurinn.

Fundi Íslendinga með Bretum og Hollendingum um Icesave málið lauk í dag án niðurstöðu. Fulltrúar þjóðanna þriggja hafa átt fundi í Lundúnum síðastliðnar tvær vikur, að því er segir í tilkynningu fjármálaráðuneytisins

„Við höfðum vonast til þess að sameiginleg niðurstaða um bætt kjör í Icesave-málinu næðist“, segir  Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra í tilkynningu.

„Það hefur enn ekki tekist. Báðir aðildar lögðu fram uppbyggilegar tillögur en enn greinir þjóðirnar töluvert á. Við munum nú ræða við samningamenn okkar þegar þeir eru komnir aftur heim.“

Íslenskir kjósendur munu ganga að kjörborði 6. mars næstkomandi þar sem greidd verða atkvæði um gildi laga nr. 1/2010 um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf.        Forseti Íslands synjaði þessum lögum staðfestingar 5. janúar 2010.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert