Mokstri hætt kl. 21.30 á Akranesi

Reynt var að halda veginum um Borgarfjarðarbraut opnum til kl. 18.00 í kvöld. Einnig verður reynt að halda leiðinni frá Borgarnesi að Hvalfjarðargöngum og á Akranes opinni til kl. 21.30. Eftir það er ekki tali öruggt að vera á ferðin á þessum slóðum vegna óveðursins, að sögn Vegagerðarinnar.

Ófært er nú orðið á Mýrdalssandi og Reynisfjalli við Vík í Mýrdal, einnig er ófært á Siglufjarðarvegi, um Þröskulda og í Reykhólasveit.

Snjóþekja og snjókoma er á Reykjanesbraut og raunar á öllu suðvestur horninu. Þæfingsfærð og skafrenningur er á
Mosfellsheiði. Á Suðurlandi eru hálkublettir og éljagangur á Sandskeiði, Hellisheiði og í Þrengslum. Á öðrum leiðum eru hálkublettir, éljagangur og sumstaðar snjóþekja.

Á Vesturlandi er hálka og stórhríð á Holtavörðuheiði og ekkert ferðaveður. Þæfingsfærð og skafrenningur undir Hafnarfjalli að Hvalfjarðargöngum og í uppsveitum Borgarfjarðar. Hálkublettir og skafrenningur er svo í Borgarfirði, á Holtavörðuheiði og á Snæfellsnesi.

Á Vestfjörðum er hálka, hálkublettir, éljagangur eða skafrenningur á flestum leiðum. Þungfært og stórhríð er á Steingrímsfjarðarheiði og  á Ströndum og þar er ekki ferðaveður. Ófært er um Þröskulda og í Reykhólasveit.  Þæfingsfærð er frá Kollafirði að Þorskafirði.

Á Norðurlandi vestra er ófært á Siglufjarðarvegi. Hálka og skafrenningur er  á Þverárfjalli og í Langadal. Í Skagafirði eru hálkublettir og éljagangur. Á Öxnadalsheiði er skafrenningur og snjóþekja. Norðaustanlands er éljagangur og hálka í öllum Eyjafirðinum og á Víkurskarði.

Éljagangur og snjóþekja er svo við Mývatn en hálka ásamt einhverjum skafrenning er á flestum öðrum leiðum.

Á Austurlandi eru hálkublettir á Möðrudalsöræfum og snjóþekja á Vopnafjarðarheiði. Snjóþekja er mjög víða eins og til að mynda á Fjarðarheiði og á Vatnsskarði eystra. Hálka er þó á Fagradal og í Oddskarði en svo eru hálkublettir frá Fáskrúðsfirði að Höfn.

Suðaustanlands er snjóþekja eða hálkublettir ásamt einhverjum éljagangi. Ófært er þó orðið á Mýrdalssandi og á Reynisfjalli.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert