Ófærð í Vestmannaeyjum

mbl.is

Mikil ófærð er í Vestmannaeyjum enda bærinn á kafi í snjó. Að sögn lögreglunnar var snjóhríð í alla nótt og mjög blint og veðrið enn ekki gengið niður. Taka þeir fram að aðeins sé jeppafært. Nú þegar hafa borist þrjár tilkynningar um fólksbifreiðar sem setið hafa fastar í skafli. Búið er að kalla björgunarsveitarmenn út til að aðstoða fólk við að komast til vinnu.

Lögreglan í Vestmannaeyjum hvetur fólk til að vera ekki á ferðinni að nauðsynjalausu. Einnig eru foreldrar hvattir til að senda börn sín ekki til skóla. Verið er að moka götur en það skefur jafnóðum í förin.

Veðrið hefur einnig verið vont á Suðurnesjum og talsverð ófærð þar í nótt. Hafði lögreglan því í nógu að snúast við að kippa bílum upp úr sköflum, en að sögn lögreglunnar er áberandi hvað bílar virðast illa út búnir. Bendir hún á að þeir bílar sem verið hafa á nöglum frá upphafi vetrar og keyrt á auðum götum séu oft illa í stakk búnir til að takast á við núverandi aðstæður þar sem naglarnir séu í mörgum tilfellum búnir, þ.e. hafa eyðst burtu á auðum götunum.

Búið er að ryðja Reykjanesbrautina en lögreglan varar við mikilli hálku og segir að það safnist í skafla við mislægu gatnamótin. Hvetur hún fólk til að fara varlega. Þess má geta að allt flug er á áætlun, en fólk er hvatt til þess að fylgjast með fréttum af flugi í textavarpinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka