Snjóflóð féll á íbúðarhús, dráttarvél og útihús í Görðum í Reynishverfi í Mýrdal í dag. Garðar eru syðsti bærinn í hverfinu sem er vestan við Reynisfjallið. Fimm bæir verða rýmdir í nótt til öryggis, þrír í Reynishverfi og tveir í Mýrdalnum, að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli.
Bæirnir sem mælst er til að verði rýmdir standa illa gagnvart fjallshlíðum þar sem talið er að snjór hafi safnast fyrir. Að sögn lögreglunnar er fyrst og fremst um öryggisráðstöfun að ræða.
Vont veður er á þessum slóðum, slæmt skyggni og mikill snjór. Erfitt er því að meta hve mikill snjór hefur safnast fyrir í fjöllunum. Ekki lá fyrir hve margir búa á bæjunum sem rýmdir verða í nótt.
Grétar Einarsson, snjóflóðaeftirlitsmaður í Mýrdal, hafði eftir ábúendum í Görðum að snjóflóðið hafi komið alveg upp að íbúðarhúsinu, farið á fjós og m.a. lent á traktor. Ábúandi taldi að ekki hafi orðið miklar skemmdir.
Bærinn Garðar stendur niður við sjó vestan við Reynisfjallið og þar er
m.a. rekin ferðaþjónusta og kaffihús á sumrin.
Sveinn Brynjólfsson, á snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands, sagði að nú væri fylgst með Mýrdalnum og Reynishverfinu vegna snjóflóðahættu. Þegar rætt var við hann um kl. 19.30 var talin mest hætta þar á snjóflóðum á landinu.
Í dag hefur lögreglan hringt á ellefu bæi í Mýrdalnum og beðið fólk að hafa varann á sér vegna mögulegrar snjóflóðahættu. Sveinn sagði það vera fremur sjaldgæft, en vel þekkt, að snjóflóð hafi fallið á þessu svæði. Sjóflóð hafi fallið nærri bæjum í Reynishverfi oftar en einu sinni.
Mikið snjóaði á skömmum tíma í Mýrdalnum og áttin var austlæg. Snjór safnaðist fyrir vestan í Reynisfjallinu. Sveinn sagði ekki nógu mikið vitað um ástand snævarins í fjallinnu, hvort hann er fastur eða laus í sér.
Það að sjóflóð skyldi falla að bænum Görðum er þó næg vísbending um að snjóflóðahætta er á svæðinu og vestan í fjöllunum.
Á morgun gengur í norðvestanátt á Vestfjörðum og verður fylgst með hvort þar skapist mögulega snjóflóðahætta.