Ríkið sýknað af kröfum Impregilo

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur sýknaði í dag íslenskra ríkið af kröfu ítalska verktakafyrirtækisins Impregilo en áður hafði Hérðasdómur Reykjavíkur dæmt ríkið til að greiða rúma 1,23 milljarða kr. vegna ofgreiddrar staðgreiðslu af launum portúgalskra starfsmanna sem ráðnir voru af starfsmannaleigum. Ríkið var að auki dæmt til að greiða 600 milljónir í dráttarvexti.

Impregilo reisti kröfu sína á því að félagið ætti rétt á endurgreiðslu samkvæmt lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Hæstiréttur taldi hins vegar að fé, sem Impregilo hefði verið gert að skila vegna staðgreiðslu af launum portúgölsku starfsmannanna, hefði ekki verið oftekið þar sem íslenska ríkið hefði átt réttmæta kröfu til fjárins.

Þá væri réttur til endurgreiðslu samkvæmt lögunum á hendi gjaldandans sjálfs, en Impregilo hefði haft milligöngu við að uppfylla skattskyldu, sem hvíldi á öðrum, en ekki verið í hlutverki gjaldanda. Var því ekki fallist á að Impregilo gæti með stoð í lögunum krafið ríkið um endurgreiðslu staðgreiðslu af launum.

Þá var því hafnað að Impregilo gæti stutt kröfu sína með almennum reglum fjármunaréttarins um endurgreiðslu ofgreidds fjár, enda ættu sömu sjónarmið við um oftekið fé og um endurgreiðslu samkvæmt lögunum.

Loks reisti Impregilo kröfu sína á því að íslenska ríkið bæri ábyrgð eftir reglum skaðabótaréttar á tjóni, sem félagið hefði orðið fyrir. Hæstiréttur féllst á það ríkið hefði með ólögmætum hætti brotið rétt á Impregilo með því að knýja félagið til að hafa milligöngu um staðgreiðsluskil af launum portúgölsku starfsmannanna að undanteknum þeim hluta launanna, sem stafaði af mun á íslenskum og portúgölskum launum.

Rétturinn taldi hins vegar var talið að Impregilo hefði vanrækt skyldu sína til að takmarka tjón sitt og hefði því fyrirgert rétti til bóta. Var ríkið því sýkn af kröfum Impregilo að því er varðaði þann hluta þeirra, sem stafaði af staðgreiðsluskilum af launum starfsmanna. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert