Víking AK var sendur til loðnuveiða í dag. Skipið hefur legið í höfn á Akranesi frá því síðastliðið sumar að það var notað til síldarflutninga. Það hefur ekki farið til veiða síðan árið 2008. Vel gekk að manna skipið. Skipstjóri er Magnús Þorvaldsson sem var m.a. skipstjóri á Sunnubergi NS á sínum tíma.
Í frétt HB Granda segir að ákvörðun um þetta hafi verið tekin í morgun og lét skipið úr höfn upp úr hádeginu. Ástæða þess að skipið fór til veiða að nýju er það markmið HB Granda er að nýta loðnukvóta félagsins á vertíðinni að sem mestu leyti til hrognatöku og frystingar á hrognum fyrir Japansmarkaðinn.
„Þroski hrognanna úr loðnunni, sem nú veiðist í Faxaflóa, er orðinn nægilegur fyrir Japansmarkaðinn og því hefur verið ákveðið að setja fullan kraft í veiðarnar.
Loðnukvóti HB Granda á vertíðinni er um 20 þúsund tonn og í morgun var búið að veiða um 6.500 tonn af þeim kvóta. Loðnuhrognavinnslan er stunduð á Akranesi og Vopnafirði en þangað barst fyrsti loðnuaflinn á vertíðinni í fyrrakvöld er Faxi RE kom þangað með fullfermi,“ segir í frétt HB Granda.