Alvarleg brot á samkeppnislögum

Samkeppniseftirlitið tekur að Lyf og heilsa hf. (L&h) hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína með aðgerðum sem höfðu það markmið að hindra að nýr keppinautur í lyfsölu á Akranesi næði fótfestu á markaðnum.

Aðgerðirnar voru til þess fallnar að senda skýr skilaboð til annarra aðila um að ekki myndi borga sig að reyna að keppa við L&h. Telur Samkeppniseftirlitið að brotin hafi verið alvarleg og leggur sekt á L&h að fjárhæð 130 milljónir króna, að því er fram kemur í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Aðdragandi málsins er að sumarið 2007 hóf nýtt apótek á Akranesi, Apótek Vesturlands (AV), samkeppni við apótek í eigu L&h sem var fyrir á staðnum. Í kjölfarið barst Samkeppniseftirlitinu ábending um að L&h hefðu gripið til aðgerða til að hindra að AV næði að hasla sér völl á Akranesi.

Samkeppniseftirlitið ákvað að taka málið til rannsóknar og framkvæmdi húsleit hjá L&h þann 17. september 2007. Rannsókn málsins hefur verið umfangsmikil og lauk gagnaöflun í nóvember 2009.

Skýr stefna L&h að keppa ekki við Lyfju

„L&h hafa við meðferð málsins hafnað því alfarið að fyrirtækið væri markaðsráðandi. Þurfti Samkeppniseftirlitið því að taka þetta atriði til skoðunar, skilgreina samkeppnismarkaði málsins og meta stöðu fyrirtækja á honum. Hefur ákvörðunin að geyma ítarlega greiningu á markaði fyrir smásölu lyfja, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á Akranesi.

Á árinu 2006 ógilti Samkeppniseftirlitið samruna systurfélags L&h (DAC ehf.) við Lyfjaver, sem er keppinautur L&h. Í því máli var lagt til grundvallar að L&h og Lyfja væru í sameiginlega markaðsráðandi stöðu á höfuðborgarsvæðinu og að samruninn hefði styrkt hina sameiginlegu markaðsráðandi stöðu.Áfrýjunarnefnd samkeppnismála staðfesti ákvörðunina.

Í sameiginlegri markaðsráðandi stöðu felst í aðalatriðum að mögulegt er fyrir viðkomandi fyrirtæki að samhæfa hegðun sína á markaðnum án þess að þurfa að taka tillit til keppinauta eða neytenda. Eru fyrirtækin þannig í stöðu til þess að takmarka samkeppni og hækka verð.

Í ljósi mótmæla L&h þurfti í þessu máli að rannsaka hvort þessi staða væri enn fyrir hendi. Gögn sem aflað var í húsleitinni hjá L&h staðfesta þetta. Þannig er upplýst að það hafi verið skýr stefna L&h að keppa ekki í verði við Lyfju hvorki á lausasölulyfjum né lyfseðilsskyldum lyfjum.

Einn yfirmanna L&h orðaði þetta svo í tölvupósti: „Varðandi verðin í apótekunum almennt þá er L&h ekki í verðsamkeppni við samkeppnisaðilana.“

Sýna gögn að ákvörðun um verð lyfja var stillt þannig af að það væri hærra en verð sömu lyfja hjá Lyfju. Er þetta skýr staðfesting á tilvist sameiginlegrar markaðsráðandi stöðu og skorti á samkeppni milli stóru lyfjakeðjanna," segir í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu.

Lyf og heilsa nefndu aðgerðirnar „baráttuafslætti“

Í tilkynningu frá Samkeppniseftirlitinu kemur fram að Lyf og heilsa hafi nefnt aðgerðir gegn Apóteki Vesturlands „baráttuafslætti“. Um var að ræða verulega afslætti á mikilvægum lyfjum og voru þeir aðeins í boði á Akranesi. Umfang þessara afslátta var ákveðið með hliðsjón af fjárhagsstöðu AV sem L&h töldu veikburða keppinaut. Var tilgangur þessara aðgerða að hrekja hinn nýja keppinaut út af markaðnum.

Töldu eiganda Apóteks Vesturlands ekki þola við mikið lengur

Framkvæmdastjóri L&h taldi í þessu samhengi í tölvupósti að AV „þolir þetta örugglega ekki lengi.“ Í öðrum tölvupósti framkvæmdastjórans til eigenda L&h sem sendur var 7. júlí 2007 var rætt um fyrirsvarsmann AV og aðgerðir gegn þessum nýja keppinauti og segir þar m.a.:
„Mér finnst hæpið að hann hafi úthald lengi miðað við þessar forsendur
en helst myndi ég vilja sjá lyfseðlafjölda hjá honum fara niður fyrir 30%
þá er þetta örugglega búið. Hann tekur líklega á sig að vera launalaus
eða launalítill einhverntíma en það gengur ekki til lengdar.“

Lyf og heilsa í eigu Wernersbræðra

Í frétt sem birtist í Morgunblaðinu þann 29. september í fyrra kom fram að félag í eigu bræðranna Karls og Steingríms Wernerssona fékk 896 milljónir króna að láni frá Moderna Finance AB, sem var einnig í þeirra eigu, til að kaupa verslunarkeðjuna Lyf og heilsu út úr viðskiptasamsteypunni Milestone í lok mars í fyrra.

„Því er Lyf og heilsa ekki á meðal þeirra eigna sem Milestone færði undir Moderna Finance AB á sínum tíma og nú er verið að skoða hvort hægt sé að rifta færslu á á grundvelli gjaldþrotalaga. Slík riftun getur átt sér stað í allt að 24 mánuði eftir skrásettan söludag.

Félag bræðranna, sem heitir Aurláki ehf., keypti Lyfja og heilsu-verslanirnar út úr Milestone-samsteypunni fyrir um 3,4 milljarða króna, en um 2,5 milljarðar af kaupverðinu voru greiddir með yfirtöku skulda. Í úttekt Ernst & Young á viðskiptum Milestone við tengda aðila kemur hins vegar fram að 896 milljónir króna hafi verið „viðskiptafærðar og skulu greiðast við fyrstu hentugleika samkvæmt samningi“, samkvæmt frétt Morgunblaðsins í september 2009.

Þetta þýðir að Moderna lánaði Wernersbræðrunum tæpar 900 milljónir króna til að þeir gætu keypt út Lyf og heilsu og að þeir ættu að greiða skuldina þegar þeir gætu. Guðmundur Ólason, forstjóri Milestone, segir að skuldin hafi verið gerð upp skömmu eftir að til hennar var stofnað.

Hér er hægt að lesa ákvörðun Samkeppniseftirlitsins í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert