Frekari fundir ekki ákveðnir

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á leið á fundinn.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra á leið á fundinn. Ómar Óskarsson

Engir frekari fundir hafa verið ákveðnir með Bretum og Hollendingum um Icesave. Stuttum fundi forystumanna stjórnmálaflokkanna og samninganefndarinnar í Stjórnarráðinu lauk nokkuð eftir kl. 19.00 í kvöld. Fundurinn hófst kl. 18.30.

Að loknum fundinum sagði Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra að það væri ekki útilokað að framhald yrði á viðræðunum við Breta og Hollendinga. Hann hafi sagði að síma- og netsamband við Ísland virkaði vel og því vel mögulegt að þjóðirnar ræði meira saman.

Frekari viðræður við Breta og Hollendinga hafa þó ekki verið ákveðnar. Aðspurður um hvort hann teldi líklegt að eitthvað gerðist í málinu áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram sagði Steingrímur ekki hafa forsendur til að spá fyrir um það.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kvaðst ekki sjá fyrir sér að neitt muni gerast í þessum málum áður en þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram laugardaginn 6. mars.

Bjarni taldi að samningurinn sem er til grundvallar lögunum sem kosið verður um í þjóðaratkvæðagreiðslunni sé vondur. Meira að segja að viðsemjendur hafi nú viðurkennt í viðræðunum að fyrri samningurinn hafi verið slæmur því þeir hafi boðið skárri kosti nú.

Steingrímur var spurður um frestun á birtingu skýrslu rannsóknanefndarinnar. Hann taldi þessa frestun bagalega, en sagði ekkert við því að gera. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka