Hæstiréttur staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að heimilt hafi verið að kyrrsetja innistæður Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, á bankareikningum hans. Var það sérstakur saksóknari sem fór fram á kyrrsetninguna.
Baldur skaut málinu til Hæstaréttar en héraðsdómur hafnaði þann 5. febrúar 2010 kröfu hans um að fella úr gildi þá ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 13. nóvember 2009 að kyrrsetja innstæður á bankareikningum hans hjá Nýja-Kaupþingi hf. (nú Arion banka hf.).
Fyrr í mánuðinum staðfesti Hæstiréttur úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að hafna kröfu Baldurs um að lýsa rannsókn sérstaks saksóknara á ætluðum innherjasvikum Baldurs ólögmæta og fella hana niður.
Sérstakur saksóknari hóf rannsóknina í kjölfar kæru Fjármálaeftirlitsins en sú stofnun hafði áður tilkynnt Baldri, að athugun á máli hans yrði hætt.