„Í fullum rétti að tjá sig“

Björgvin G. Sigurðsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar.
Björgvin G. Sigurðsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn

Þingmenn í hópi VG sem rætt var við í gær vildu ekkert segja opinberlega um þá uppákomu sem varð á sameiginlegum þingflokksfundi VG og Samfylkingar í fyrradag. Þar fóru að sögn þeirra einstakir samfylkingarmenn fram á að þingmenn VG héldu aftur af sér í gagnrýni á aðild að ESB. Þingmenn innan VG segjast eftir sem áður ekki ætla að fara dult með andstöðu sína við ESB. Vísa til stjórnarsáttmálans sem segi beinlínis að flokkarnir skuli virða ólík sjónarmið um ESB og séu því í fullum rétti til að tjá sig.

Gefur kolranga mynd

Formaður þingflokks Samfylkingarinnar segir hins vegar af og frá að slegið hafi í brýnu á sameiginlega þingflokksfundinum. „Það er mjög dapurlegt að ónafngreindir þingmenn rjúfi þann fullkomna trúnað sem ríkir alltaf um umræður á þingflokksfundum og segi frá með svo röngum hætti,“ segir Björgvin G. Sigurðsson, formaður þingflokksins.

„Ég hélt satt að segja að ég væri að lesa einhverja skemmtiútgáfu af Morgunblaðinu í morgun. Það er algerlega kostulegt ef þingmenn eru að tjá sig um fundinn með þessum hætti. Ég hef setið nánast alla þingflokksfundi Samfylkingarinnar í 11 ár og þar ríkir 100% trúnaður. Stóra fundarefnið í gær [miðvikudag] var aðeins eitt, skuldavandi heimila og fyrirtækja. Við ræddum það mál í tvo klukkutíma og áttum mjög hreinskiptna og opinskáa umræðu um það,“ segir Björgvin.

„Þrátt fyrir að einhverjir tveir þrír þingmenn hafi skipst á skoðunum um einhver svona mál gefur það kolranga mynd af fundinum,“ bætir hann við.

Björgvin vísar því alfarið á bug að þingmenn Samfylkingar hafi reynt að segja þingmönnum VG fyrir verkum um ummæli þeirra um ESB.

„Það getur vel verið að einhverjum í Samfylkingunni finnist einhverjir í VG ganga hart fram í umræðum um það. Mér finnst það ekki. Ég er mikill stuðningsmaður umsóknar um aðild að ESB og mér er hjartanlega sama um viðhorf þingmanna innan VG í þessum málum. Ég veit að þau eru skipt og ég ber mikla virðingu fyrir því og hef alltaf gengið að því vísu. Það eru nokkrir innan VG tiltölulega fylgjandi aðildarumsókn en aðrir eru harðlega á móti því.“

Spurður hvort áframhald verði á sameiginlegum þingflokksfundum Samfylkingar og VG segir Björgvin enga breytingu verða á því. „Við ákváðum það við stjórnarmyndunina að funda sameiginlega með reglubundnum hætti og markmiðið var að eiga hreinskiptna umræðu um stjórnmálin og þjappa hópunum saman. Það þótti okkur takast vel í gær, þetta var besti fundurinn af þeim öllum sem haldnir hafa verið. Þess vegna voru það mér djúpstæð vonbrigði að sjá að einhver ónafngreindur þingmaður skyldi kjósa að rjúfa þann trúnað sem ríkir um þingflokksfundi. Sérstaklega þegar er verið að bera mjög alvarlega hluti á samherja um að þeir séu að reyna að segja þeim fyrir verkum eða reyna að þagga niður í einhverri umræðu. Því fer víðsfjarri,“ segir Björgvin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert