Innskot undir Eyjafjallajökli

Eitthvað mikið er á seyði undir Eyjafjallajökli.
Eitthvað mikið er á seyði undir Eyjafjallajökli. rax

Kvikuinnskot er nú í gangi undir Eyjafjallajökli og hefur verið síðan um áramót, að sögn dr. Páls Einarssonar jarðeðlisfræðings. Þessu hafa fylgt jarðhræringar og þensla jarðskorpunnar. GPS mælistöð Veðurstofunnar við Þorvaldseyri hefur færst um 30 mm til suðurs frá áramótum og einnig lyfst.

Páll sagði þetta í fjórða skipti sem svona atburðarás kemur fram. Fyrst gerðist það 1994, svo 1999, aftur í fyrrasumar og var þá fremur lítið. „Það sem nú er í gangi er ekki orðið jafnt stórt og 1999 en það stefnir óðfluga í það því það er mikil ferð á þessu núna,“ sagði Páll.

Hann sagði erfitt að bera saman þróunina nú og 1999 því gögnin séu ekki alveg sambærileg. GPS mælingarnar benda til þess að hraðinn sé að aukast.

Af 30 mm tilfærslu mælisins á Þorvaldseyri frá áramótum varð 10 mm færsla á síðustu fjórum dögum. Færslan er því mælanleg í millimetrum á dag. Hjörleifur Sveinbjörnsson, jarðfræðingur á Veðurstofu Íslands, sagði að hreyfing jarðskorpunnar við Eyjafjallajökul hafi verið mjög hröð frá áramótum og sérstaklega mikill undanfarna fjóra til fimm daga.  Í síðustu viku hefur færslan verið 5-6 mm.

Hjörleifur sagði að færslan á GPS stöðvunum haldist í hendur við skjálftavirknina. Þegar færslan sé mikil sé skjálftavirknin jafnframt meiri.  „Ég held að það séu allir sammála um að þetta sé vegna þess að kvika sé að troða sér inn undir Eyjafjallajökul,“ sagði Hjörleifur.

Hjörleifur sagði að enginn gosórói hafi mælst undir Eyjafjallajökli núna. Ekki eru heldur nein merki um að hún sé að brjóta sér leið til yfirborðsins. „Þetta er líklega mjög djúpt þarna ofan í,“ sagði Hjörleifur.

Páll sagði erfitt að meta hve djúpt er á kvikuna sem er á ferðinni undir jöklinum. Hann sagði að upptök jarðskjálftanna hafi verið talsvert mikið á fimm km dýpi. Það sé etv. besta vísbendingin enn sem komið er.

Erfitt er að spá um framhaldið, að mati Páls. „Hingað til hafa þessir atburðir byrjað snögglega og líka endað frekar snögglega. Það er því ekki hægt að segja hvenær þetta hættir.“

Katla, næsti nágranni Eyjafjallajökuls, hefur verið róleg undanfarið.  Jarðskjálftavirknin hefur verið mest undir toppi Eyjafjallajökuls og þar norðaustan við hann. Síðustu daga hefur hún verið að breiða úr sér.

Páll segir að svipað hafi gerst 1999. Þá byrjaði jarðskjálftavirknin á fremur þröngum bletti undir fjallinu norðaustanverðu og dreifðist síðan til suðurs og austurs. Eitthvað svipað virðist vera í gangi nú.

Full ástæða er til að hafa varann á þegar eldfjall lætur svona, að sögn Páls. Hins vegar er ekki ástæða til að gera meira úr þessari atburðarás en efni eru til. Í hin þrjú skiptin sem þetta gerðist hætti atburðarásin skyndilega og enn sé þetta ekki orðið jafn stórt og 1999.

Veðurstofan hefur sett jarðvísindamenn á bakvaktir vegna þessara atburða til að fylgjast betur með þeim. Almannavarnir eru einnig að fylgjast með þessu og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. 

Ef eldgos brytist út undir jökulhettunni myndi ísinn bráðna. Ísinn er fremur þunnur og því yrði jökulhlaupið væntanlega ekki stórt. Hins vegar liggur jökullinn hátt og því gæti hlaupið orðið talsvert kraftmikið þótt það yrði fremur vatnslítið.

Hér sést hve mikið GPS-mælistöðin við Þorvaldseyri hefur mjakast til.
Hér sést hve mikið GPS-mælistöðin við Þorvaldseyri hefur mjakast til. Veðurstofa Íslands
Kortið sýnir jarðskjálfta undir Eyjafjallajökli frá 22, febrúar.
Kortið sýnir jarðskjálfta undir Eyjafjallajökli frá 22, febrúar. Veðurstofa Íslands
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka