Veðrið er að mestu gengið yfir við Vík í Mýrdal en kolófært er innanbæjar í Vík. Hjá Bryndísi F. Harðardóttur, formanns svæðisstjórnar á svæði 16 hjá Landsbjörgu, fengust þær upplýsingar að öllu skólahaldi hefði þegar í gær verið aflýst í bænum en opið er í leikskólanum. Verið er að moka í bænum. Björgunarsveitin hefur í morgun aðstoðað starfsfólk dvalarheimilisins Hjallatúns til og frá vinnu, auk þess sem sveitin hefur fært eldri borgurum vistir og lyf.
Björgunarsveitin hefur, að sögn Bryndísar, haft í nógu að snúast síðan í gær. Á fjórða tug bílstjóra manna sem sátu fastir í bílum sínum allt frá Pétursey í vestri og austur á Mýrdalssand þurftu aðstoð björgunarsveitarmanna í gærkvöld og nótt vegna ófærðar. Bæði var um Íslendinga og erlenda ferðamenn að ræða. Segir Bryndís að sem betur fer hafi fólk í öllum tilfellum haldið kyrru fyrir í bílum sínum, en lengst þurfti fólk að bíða í tvær klukkustundir.
Seint í gærkvöld var einnig ákveðið að flytja heimilisfólkið á bænum Görðum undir Reynisfjalli burt vegna hættu á snjóflóði úr fjallinu. Bryndís segir að þangað hafi verið kolófært og björgunarsveitarmenn hafi farið á snjóbíl undir nóttina. Þeir hafi verið búnir að flytja fólkið að Kvíabóli um klukkan hálf tvö í nótt. Ábúandinn af Lækjarbakka komst sjálfur burt af bænum sínum, en hann var einnig rýmdur vegna snjóflóðahættu.
Hjá Sveini Brynjólfssyni, sem er á snjóflóðavakt Veðurstofunnar, fengust þær upplýsingar að starfsmenn Veðurstofunnar væru á leið austur til að kanna aðstæður og meta hvort snjóflóðahættan væri liðin hjá. Sagði hann veðrið vera gengið yfir í dag, en tók fram að veðurspáin fyrir nóttina væri hins vegar ekki góð og því ekkert hægt að segja um það að svo stöddu hvort ábúendur á Görðum og Lækjarbakka fengju að snúa heim í dag.