Lyf og heilsa lýsir furðu sinni yfir ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um brot fyrirtækisins á samkeppnislögum, að því er fram kemur í yfirlýsingu frá fyrirtækinu. Keðjan ætlar að fara með málið fyrir dómstóla.
„Apótek Vesturlands á Akranesi kvartaði til Samkeppniseftirlitsins yfir að Lyf og heilsa lækkaði verð á vörum í verslun sinni á Akranesi haustið 2007 til að koma til móts við neytendur. Stuttu síðar framkvæmdi Samkeppniseftirlitið húsleit í húsakynnum Lyfja og heilsu.
Á þeim tímapunkti hafði Apótek Vesturlands náð 40-50% markaðshlutdeild á Akranesi á einungis örfáum mánuðum. Við teljum því fráleitt að aðgerðir okkar hafi á einhvern hátt leitt til óeðlilegra samkeppnisaðstæðna. Lyf og heilsa telur einsýnt að meint markaðsráðandi staða getur ekki hafa verið til staðar þar sem fyrirtækið tapaði helming af markaðshlutdeild á stuttum tíma.
Verðlækkun Lyfja og heilsu hafði í engum tilfellum í för með sér að vöruverð færi undir kostnaðarverð heldur var um að ræða lækkun á ákveðnum vörum til að mæta samkeppni. Lækkanir tóku gildi eftir að Apótek Vesturlands opnaði og í kjölfar þess að upplýsingar bárust frá viðskiptavinum um að Apótek Vesturlands hefði lækkað vöruverð sitt. Slíkt kallast eðlileg samkeppni. Það er raunar með ólíkindum að fyrirtækið sé dæmt fyrir brot á samkeppnislögum þegar það bíður lægri hlut í samkeppninni og er í raun gert ókleift að taka þátt í virkri samkeppni.
Markaðshlutdeild Lyfja og heilsu er um 35%. Samkeppniseftirlitið telur þrátt fyrir þetta að Lyf og heilsa sé með “sameiginlega” markaðsráðandi stöðu á höfuðborgarsvæðinu en verður þá að taka aðal samkeppnisaðilann Lyfju með í þá skilgreiningu. Sú skilgreining er síðan yfirfærð yfir á allt annan markað á Akranesi. Lyf og heilsa og Lyfja eru í samkeppni og engin tengsl eru á milli félaganna. Sú “sameiginlega” markaðsráðandi staða er talin hafa áhrif á markaðinn á Akranesi en Lyfja rekur enga lyfjabúð á Akranesi.
Samkeppniseftirlitinu er ætlað að standa vörð um hagsmuni neytenda. Með ákvörðun sinni hindrar Samkeppniseftirlitið fyrirtækið í að stunda eðlilega samkeppni og leggur á íþyngjandi viðurlög. Aðgerðir Samkeppniseftirlitsins hafa leitt til þess að líkur eru á að einungis eitt apótek starfi á Akranesi með sérstökum stuðningi eftirlitsins.
Þá gerir Lyf og heilsa alvarlega athugasemd við undirbúning að húsleit þeirri er Samkeppniseftirlitið framkvæmdi í höfuðstöðvum Lyfja og heilsu haustið 2007. Samkvæmt þeim gögnum sem fyrir liggja þá var sú húsleit einvörðungu byggð á viðtali við Ólaf Adolfsson einn af eigendum Apóteks Vesturlands, á netmiðlinum dv.is. Vandaðri undirbúningur hefði leitt í ljós að forsendur fyrir markaðsráðandi stöðu Lyfja og heilsu voru ekki til staðar á Akranesi.
Með afar ósmekklegum hætti hefur þeim skilaboðum verið komið á framfæri að keðjan Lyf og heilsa sé að klekkja á einyrkjanum Ólafi Adolfssyni. Hið rétta er að Apótek Vesturlands er í meirihlutaeigu Guðmundar Reykjalíns og Hjördísar Ásbergs sem bæði eru athafnamenn í íslensku atvinnulífi.
Samkeppniseftirlitið bæðir rannsakar mál og tekur íþyngjandi ákvarðanir. Það þykir okkur óeðlilegt og er raunar á skjön við það sem gerist í löndunum í kringum okkur. Því virðist að sektarákvörðun Samkeppniseftirlitsins sé réttlæting fyrir ákvörðun um húsleit sem byggð var á afar hæpnum forsendum. Ekki er vitað til að nokkurri húsleit Samkeppniseftirlitsins hafi lokið með því að stofnunin dragi ákvarðanir til baka um sekt sem vekur upp spurningar um vinnubrögð.
Það er því staðföst trú okkar að dómstólar kveði upp hlutlausan dóm en þangað munum við leita til þess að fá fullnaðarúrskurð í þessu máli," segir í yfirlýsingu frá Lyfjum og heilsu.