Atvinnumiðstöð Hafnarfjarðar verður opnuð á næstunni þar sem sinnt verður svæðisbundinni vinnumiðlun, ráðgjöf og annarri þjónustu við atvinnuleitendur í Hafnarfirði, einkum langtímaatvinnulausa og ungt fólk.
Þetta er þróunarverkefni byggt á samstarfs- og þjónustusamningi milli Vinnumálastofnunar og Hafnarfjarðarbæjar með aðild Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði, samkvæmt fréttatilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ.
„Markmið verkefnisins er að efla þjónustu við unga atvinnuleitendur og fólk sem hefur verið án atvinnu um langt skeið og aðstoða þá við að verða á ný virkir þátttakendur á vinnumarkaði.
Stefnt er að opnun svæðisbundinna atvinnumiðstöðva í fleiri sveitarfélögum á næstunni og stórauknu samstarfi Vinnumálastofnunar við stéttarfélög."
Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra og Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, undirrituðu samninginn í dag ásamt Gissuri Péturssyni, forstjóra Vinnumálastofnunar og Haraldi Eggertssyni og Kolbeini Gunnarssyni fyrir hönd Fulltrúaráðs verkalýðsfélaganna í Hafnarfirði.